Föstudagur 24. mars 2006
Skattadagur
Ég sat í allan dag með sveitt ennið að klambra saman skattaskýrlunni okkar Finns hérna úti. Skýrslan fyrir árið í fyrra reyndist extra þvælin því að frá og með 17. september 2005 þá vorum við Finnur búin að vera 5 ár í Bandaríkjunum (!!!) og þar með orðin “residents for tax purposes” en fyrir þann tíma vorum við “non-residents”.
Þar með vorum við orðin “dual-status” og þá upphófst alls konar hringl með það hvernig væri best að telja þetta fram: a) skila inn sitthvorri skýrslunni sem “dual-status” og taka fram hversu mikið af tekjunum (þar með töldum bankavöxtum) væri fyrir 17 sept (þvílíkt vesen!) eða b) gefa skít í “non-resident” partinn og vera “resident” allt árið og skila saman einni skýrslu.
Það kom í ljós á endanum að valkostur b) gæfi meira í aðra hönd (því ég er með svo lág laun) en þá sá ég fram á að missa skattaafslátt út af skattasamningi á milli Íslands og Bandaríkjanna, sem ég taldi mig eiga rétt á. Fyrir rælni rakst ég á “resident” leiðbeinigar um þennan skattaafslátt sem sögðu að ég ætti ennþá rétt á honum svo lengi sem samningurinn væri með “saving clause” og “exemption á saving clause” (?!?!). Ég las því part af þessum samning (þvílíkt hrognamál!) og sá ekki betur en að það stæði heima, og því held ég að ég hafi náð að klístra skattaafslættinum inn! 🙂 Nú er bara að sjá hvað þeir segja… Vest að þetta tók mig allan daginn og því var mér ekkert meira úr verki.
Annars erum við búin að vera að þræta við skattinn hérna úti. Þeir nefnilega flokkuðu Finn sem “qualified widower” í fyrra (mislásu eitthvað framtalið) og þar með fékk hann allt of mikla endurgreiðslu. Í febrúar rankaði skatturinn við sér og heimtaði peninginn til baka en leiðréttingin var svo illa útskýrð að við skildum hvorki upp né niður og báðum þá bara um að færa Finn úr “qualified widower” í “married filing separately”. Eftir það tvöfaldaðist skuldin (!!!) en gærdagurinn fór í að hitta endurskoðanda sem kom auga á villuna og núna skuldum við bara hrúgu af peningum en ekki ógeðslega stóra hrúgu af peningum… 🙂
Ekki skattamál
Ég er búin að vera alveg voðalega undarleg síðastliðna viku, með óstrjórnlega þrá til að lesa ástarsögur/rómana og vil ekkert af vinnu vita. Það er vonandi búið núna og ég á vonandi eftir að mæta margefld í vinnuna á mánudaginn… 🙂
Í gær fimmtudag fór Finnur annars í míni-ferð til Seattle. Hann flaug þangað um kvöldið og mætti aftur heim í kvöld. Við vorum hins vegar ekki heima til að taka á móti honum, því það var saumaklúbbur í kvöld, og Anna Sólrún var sett í pössun hjá Baldri á meðan við Guðrún fórum og göspruðum. Á meðan að krakkarnir ærsluðust hjá Snorra, vorum við að dást að litlu Freyju hennar Sólveigar sem gekk hringinn og við ú-uðum og ah-uðum á milli hlátraskallanna.
Nú er helli-demba úti og von á rigningu á morgun. Ég ætla að fara með Söruh að skoða handa henni brúðarkjóla í fyrramálið – það ætti að vera skemmtileg tilbreyting – en ég vona að það rigni aðeins minna því að er svo stressandi að keyra á hraðbrautunum í rigningu! 🙂