Sunnudagur 5. febrúar 2006
Fyrsta grillveisla ársins
Í dag buðum við Íslendingum á svæðinu í fyrstu grillveislu ársins – enda kominn febrúar! Reyndar, þá var spáð extra góðu veðri í fyrsta sinn í langan tíma og því hóuðum við í mannskapinn og grilluðum hamborgara, pylsur og kjúkling á grillinu úti í garði í góðum félagsskap.
Reyndar þá var ekki alveg allt eins og best var á kosið því bæði Anna Sólrún og Finnur eru búin að vera veik um helgina. Finnur er búinn að vera með undarlegan “hitalaus en engin orka, engin matarlyst, bara sofa” sjúkdóm (sem lagðist líka á hann um síðustu helgi, en hann var nokkuð góður í vikunni) en Anna Sólrún fékk loksins kvefið sem byrjaði í vikunni fyrir alvöru – 39.5 stiga hiti í gærkvöldi, hósti og nefrennsli.
Eftir góðan síðdegisblund (og smá verkja- og hitastillandi lyf, við erum nú einu sinni í Bandaríkjunum) þá lifðu þau bæði af grillveisluna, og Anna Sólrún skemmti sér meiri að segja ágætlega með krökkunum. Ég er ekki frá því að hún hafi meiri að segja fengið sinn fyrsta frostpinna í dag!
Í öðrum fréttum er að Arnar og Sólveig munu vera einu barni ríkari eftir helgina, það bárust fréttir um að hún hefði átt stelpu í gær. Alveg frábærar fréttir það! 🙂
Í þriðjum fréttum er að ég fór með Önnu Sólrúnu í 2ja ára skoðun til nýs barnalæknis sem er hjá Palo Alto Medical Foundation, PAMF, en ekki hjá Stanford spítala eins og áður og þar fann ég loksins hitt hvíta fólkið!! (Jebb, fínu kátu mæðurnar um fertugt með fínu börnin sín tvö.) Þeir hjá Stanford taka nefnilega við ótryggðum börnum svo allt S-Ameríku fólkið fer þangað, en hjá PAMF vilja þeir heilsutryggingu þannig að þar fer fólkið sem á peninga.
Ég er ekki viss um að læknisþjónustan sé neitt mikið betri, en aldrei þessu vant þurftum við ekki að bíða eftir lækninum. Einu sinni biðum við nefnilega í rúma klst á Stanford, og ég var ekki með mat fyrir Önnu. Hún var því orðin nett geðveik þegar læknaneminn hafði loksins tíma fyrir okkur og greyið læknaneminn var öll orðin stressuð yfir þessu sem gerði illt verra og Anna Sólrún öskraði og gargaði þegar hún ætlaði að hlusta hana og skoða eyrun. All in all, Not Good. Hjá PAMF tölum við bara við einn lækni, en ekki læknanema og svo “alvöru” lækni. Þessir læknir var reyndar kvenkyns eins og flestir barnalæknar sem ég hef hitt hérna úti, og hún á fyrir 2ja ára barn en er ófrísk af númer tvö og hún var voða indæl. Anna Sólrún var amk hin rólegasta, leyfði henni að skoða sig í bak og fyrir og kíkja í eyrun án neinna mótmæla.
Nú lítur hins vegar út fyrir að ég þurfi að vera heima með hana á morgun, bæbæ heili vinnudagur… 🙁