Miðvikudagur 15. febrúar 2006
Í miðri keyrslu
Klukkan er orðin margt, en ég dvaldi aðeins of lengi fyrir framan sjónvarpið í kvöld svo ég held ég bíði aðeins lengur eftir einni Matlab keyrslunni. Vonandi tekst mér að fá Finn til að vakna með Önnu klukkan 7 í fyrramálið! 🙂
Hér er allt í góðu gengi, nema hvað sumarið (rúm 20 stig í viku) sem kom með grillveislunni er núna farið í frí aftur og þó að það hefði verið heiðskírt úti þá var alveg skítkalt í dag. Hálfgert gluggaveður bara! Sem fyrr reynum við mæðgur að gera eitthvað skemmtilegt á morgnana, en ég er búin að vera eitthvað þolinmæðis-lítil upp á síðkastið sem ég veit ekki hvort að sé afleiðing af því að Anna Sólrún er öll að stækka og vitkast eða bara almenn stress og þreyta.
Ég hélt svo sem að ég væri orðin ónæm fyrir suði eftir bræður mína, en það er alveg ótrúlegt hvað Anna Sólrún getur endurtekið sömu setninguna oft, oftast bara að bíða eftir að ég api hana eftir henni til að sýna að ég hafi skilið hana. Hún er víst að læra að tala greyið, og reynir sitt besta, en þetta getur alveg gert út af við mann! 🙂
Á móti koma gullmolar eins og í kvöld þar sem hún byrjar að syngja Piparkökusönginn við kvöldverðarborðið og endar með stóru “á FJÖÖÖL!” 🙂 Hún er öll að koma til í söngnum, kann svo til allt “Dvel ég í draumahöll” lagið, “Upp, upp, upp á fjall..” og svo sitt hvað úr Piparkökusöngum. “Stjarna allra barna” kemur oft upp en það lærði hún hjá Ömmu Ásdísi, en eitthvað er “Krummi krunkar úti” fallinn í vinsældum.
Hún fékk nýja sandala um daginn, það kom í ljós í sumarblíðunni að allir sumarsandalarnir frá í fyrra er orðnir of litlir, þannig að við bættum við stærð 9 í safnið. Hún kann að klæða sig úr þeim og í, og það sama má segja um flest föt. Helst finnst henni erfitt að klæða sig í peysur. Ég var að reyna að fá hana til að klæða sig í fötin í morgun en hún hljóp bara fram og til baka rétt fyrir framan nefið á mér (að reyna að æsa upp alvöru eltingarleik) og á endanum ætlaði hún að hlaupa upp stigann, en þá gafst ég upp, greip hana og setti hana sjálf í fötin!
Í dag gengum við heilmikið og meðal annars í bókabúðina til að kaupa efnivið í risa-kort fyrir einn “ritarann” sem er ófrísk. Við komum líka við á pósthúsinu til að endursenda jólakort til Nýja-Sjálands, en í öllum jólakortaflýtinum tókst mér að gleyma að skrifa götunúmer og götuheiti á umslagið – sem ég fékk því beint aftur í hausinn… Maður hefði nú haldið að pósturinn á Nýja-Sjálandi væri meira sjálfbjarga, en það var nú greinilega ekki! Eftir hádegið eyddi ég síðan klst í að púsla saman risakortinu og skreyta það með frekar lúðalegum hjörtum (það var rauð klessa í einu horninu sem þurfti að dulbúa. Þessi rauða klessa varð að hjarta, sem var einmana og því fylgdu fljótlega fleiri hjörtu í kjölfarið…) Svo var smá spekúlerað áður en ég sat fyrirlestur um sögu nýuppskotna geimfarsins á leið til Plútó… Upphitaðar fiskibollur í kvöldmat og Mythbusters áður en Finnur tók yfir sjónvarpið (eftir að hafa þvegið þvottinn) til að horfa á Lost (sem ég hef ekki taugar í) og þá fór ég að vinna. Núna er vinnan hins vegar búin og dagurinn líka, svo ég er farin að sofa.