Miðvikudagur 22. febrúar 2006
Galtóm
Sit hérna bara til að láta heiminn vita að Anna Sólrún er búin að jafna sig af eyrnabólgunni, og gerði það reyndar strax á fyrsta degi eftir að hún fékk pensillínið. Lífið annars gengur bara eins og venjulega, við duttum í sjónvarpið í kvöld og því var ekkert kvöldvinnustand á mér, sem var ágætt því núna get ég farið að sofa, en ef ég hefði farið að vinna, þá myndi ég örugglega vaka fram yfir miðnætti. Erfitt að vinna bara smá.
Vorið er komið aftur eftir kuldakastið, 18 stiga hiti í dag og næstu daga. Ég kláraði sögu eftir Nökkva Jarl í kvöld – er hans óopinberi yfirlesari. Finn samt fyrir því hvað íslenskan mín hefur ryðgað. Sagan var fín, en á heima í stærri sögu og þetta voru fyrstu kynni mín við hana svo þetta hékk svolítið í lausu lofti. Hlakka til að sjá rest samt.