Mánudagur 9. janúar 2005
Aftur í vanaganginn
Anna Sólrún vaknaði klukkan 06:50 í morgun og telst þar með vera búin að snúa við sólarhringnum aftur á réttan kjöl. Við skriðum á fætur á sama tíma og eftir bláberjaskyr í morgunmat (namm!) þá fór ég að taka upp úr töskunum. Upplifði Anna Sólrún þá sín önnur jól/afmæli #2 því upp úr töskunum kom fullt af dóti sem hún fékk beint í fangið. Dótið liggur ennþá út um allt herbergið hennar á efri hæðinni.
Mig langar reyndar til að breyta því í “hennar” herbergi í alvörunni svo ég er að reyna að skipuleggja hvernig er best að standa í því. Helsti fjandinn er “queen” gestarúmið okkar sem hentar svo ferlega vel í gesti, svo og þvottaflokkun, en tekur upp allt herbergið. Spurning hvort það verði látið fara svo prinsessan geti nú í alvörunni farið að breiða úr sér þarna inni. Ég sé fyrir mér Ikea ferð í hill-ingum! 🙂
Morguninn leið nú samt ofur rólega, við löbbuðum út í búð og redduðum því allra nauðsynlegasta í matinn. Síðan borðuðum við hádegismat og svo fór Anna Sólrún á leikskólann. Ég var hjá henni í lengri tíma en venjulega, að sjálfsögðu vildi hún helst bara vera á klósettinu (kúka!! kúka!!) en það virðist vera orðinn griðastaður þegar hún vill ekki vera annars staðar (t.d. að fara að sofa í rúminu). Kom þá í ljós að hún mundi ennþá hvað allir bekkjarfélagarnir hétu og fljótlega kom upp úr henni “All done!” sem hefur ekki heyrst í þrjár vikur. Ég skildi hana eftir hálf-vælandi, en þegar ég kom aftur um fjögurleytið í “kó-opp” þá var hún í sólskinsskapi og lét eins og ekkert hefði í skorist.
Hún er nú samt ennþá frekar rugluð á hvaða orð eiga heima í hvaða tungumáli (not búin!), en það er engin spurning að orðaforðinn hefur stækkað heilmikið á meðan við vorum heima. Í kvöld var smá barningur að koma henni í rúmið, Finnur fór með hana fjórum sinnum á griðarstaðinn, en svo klappaði hana hana niður, og eiginlega sjálfan sig með! Ég sat hins vegar eftir með sveitt ennið og klambraði saman stysta “abstract” ever fyrir einhverja ráðstefnu í Texas í Mars. Alltaf erfitt að skrifa um hluti sem maður á EFTIR að gera, ég er nefnilega ekkert búin að kíkja á gögni frá því í desember því að ég var í fríi – döh!! 🙂