Sunnudagur 15. janúar 2006
Dansi, dansi…
Hann Finnur er sniðugur drengur. Hann vissi vel að ég var ekkert hrifin af leikjatölvum, en samt tókst honum að pranga einni upp á mig sem jólagjöf. Hún var í fyrsta lagi notuð og því ódýr (jákvætt “ding!”), og í öðru lagi fylgdi henni svona “Dance, dance, revolution” (DDR) leikur og dansmotta (“ding, ding, ding!” :).
Þannig að þessa vikuna er ég búin að vera að stelast til að draga mottuna undan sófanum þegar Finnur og Anna eru farin að sofa og hoppa um eins og vitleysingur í klst eða svo – og vakna svo rangeygð morguninn eftir… En þetta er samt voða gaman. 🙂 Þess fyrir utan er Finnur að plana að nota Xboxið sem ein hvers konar “media center”, það er til þess að taka upp sjónvarpsefni fyrir okkur því sjónvarpsupptökuforritið sem við erum með á tölvunni er alltaf að krassa og valda okkur vandræðum. Við sjáum hvernig það fer, en hann skemmti sér amk ágætlega við að skrúfa “mod-chip” (ókunnugan tölvukubb) inn í Xboxið í dag. 🙂
Annars er vinnumórallinn svona pínkulítið upp og niður. Fékk það endanlega staðfest að yfir-prófessorinn minn er kominn á eftirlaun (hann hættir að kenna, og missir “völd” í deildinni, en hópurinn ætti samt að halda haus í svona 2 ár í viðbót á meðan fólk útskrifast) og það sparkar nú verulega í rassinn á manni með að reyna að fara nú að útskrifast. Á móti kemur að það er svo margt sem ég þarf að gera að mér fallast bara hendur. Helst þarf ég að fara að skrifa greinar, en það er á við að fara í jaxlatöku og ekki eitthvað sem ég er ennþá búin að temja mér að gera bara svona einn tveir og þrír…
Á morgun er svo leikskólinn lokaður (hálf-almennur frídagur) svo við mæðgur ætlum bara í verslunarferðir og svo til Fremont að leika við Baldur og Sif. Fremontararnir komu annars hingað í kvöld og léku meðal annars listir sínar á dansmottunni ágætu 🙂