Miðvikudagur 18. janúar 2006
Stíflað nef og pollar
Hér rigndi í gærnótt nógu mikið til að það voru stórir pollar í garðinum í morgun. Anna Sólrún fékk því að fara út í stígvélum og pollabuxum aldrei þessu vant og busla þvílíkt í vatninu. Henni fannst það mikið sport. Þess á milli þvoðum við þrjár þvottavélar (allar í einu, algjör lúxus) en það er varla saga til næsta bæjar, sérstaklega eftir að Anna Sólrún gaf piss í að sofa bleiulaus á næturnar… Hún er núna komin aftur með næturbleiu bara svo við náum öll að sofa betur. Ein fóstran stakk upp á því að henni gæti verið of kalt (eða of þreytt) á næturnar, og við erum að fikra okkur áfram hvað það varðar. Sjáum hvað setur.
Á meðan er ég komin með kvef sem náði hápunkti í gær en ég er samt öll stífluð í dag. Þar með frestast það að fara að vinna á skrifstofunni því ég vil síður smita alla… Aðal fjörið hefur því eiginlega verið hjá Finni sem er búinn að dunda við það síðustu kvöld að breyta Xbox tölvunni þannig að hann geti hlaðið inn á hana alls konar ekki-Microsoft hugbúnaði. Þetta hafðist loksins hjá honum og núna liggur hann í sófanum og spilar “Asteroids” leikinn. Það gerist víst ekki betra!! 🙂