Þriðjudagur 6. desember 2005
Höfuð, herðar, HNÉ og tær…
Anna Sólrún vaknaði aum í öðru hnénu í morgun. Svo aum að þar sem hún sat á hækjum sér gat hún ekki staðið upp. Þá rifjaðist upp fyrir mömmu gömlu að hún hefur öðru hvoru sagst verða með ái í hnénu gangandi heiman frá okkur á leikskólann. Það var því hringt á spítalann og þar leist hjúkkunni ekki betur á en svo að hún vildi fá hana í skoðun. Það stóð að sjálfsögðu heima að þegar við vorum mættar þá var Anna Sólrún orðin 90% í lagi aftur og var farin að hlaupa um þarna í lokin. Það breytti því samt ekki að hún var send í röntgenmyndatöku og blóðprufu því að þetta hljómaði eins og langvinnt vandamál. Ég held að það hafi nú bara mest lítið komið út úr því.
Helst held ég að eitthvað séu skórnir ekki alveg að gera sig, og svo hjálpar ekki til að hún hleypur og hoppar út um allt. En sum sé, við fengum að eyða saman rólegum degi á spítalanum.
Það þýddi hins vegar að ég gat ekkert unnið í dag, og því sit ég hérna seint um kvöld á skrifstofunni og bíð eftir að plaggat númer 2 fyrir AGU ráðstefnuna prentist út. Í fyrramálið þarf ég svo að taka lestin sem fer frá Palo Alto klukkan 07:05 til að vera komin upp í borg fyrir klukkan 8. Algjör pína það! Ætli ég fari svo ekki heim aftur um 5-6 leytið til þess eins að endurtaka leikinn daginn eftir, mínus það að þurfa að prenta út plaggat – vona ég!! 🙂
Fór reyndar upp í borg á mánudaginn og hitti þar óvart Völu og sá í einn af íslensku jarðskjálftastjörnunum (Magnús Tumi held ég að hann heitir) úr fjarska. Annars mætir Þóra (sem bjó hérna í fyrra) líka ásamt hrúgu af öðrum Íslendingum, en ég þekki þá fæsta því ég var í vitlausri deild heima fyrir svona jarð/plánetu-pælingar! Fyrir utan okkur Íslendingana þá er víst von á 11 þúsund manns á þessa ráðstefnu þessa 5 daga sem hún stendur yfir. Þetta er líka eins og maurabú! 🙂 Jæja, best að athuga hvernig gengur að prenta…