Fimmtudagur 3. nóvember 2005
Smá blundur
Var að vakna eftir smá síðdegisblund og á tölvunni biðu mín skilaboð um að vinsamlegast blogga, enda heil og hálf öld síðan síðasta færsla kom inn. “Úps” sagði mín. 🙂
Hér hefur nóg gerst svo sem, það var Hrekkjavaka síðasta mánudag og Anna Sólrún var tígrisdýr. Hún fór með pabba sínum að “trikk-or-tríta” og fékk meiri að segja að bragða á eigin feng! Ásdís og Auðun héldu partý og þangar komu margir Íslendingar – alltaf gaman saman! 🙂
Á þriðjudeginum hvarf Finnur í flugvél til Atlanta í Georgíu í vinnferð, þar sem hann er enn. Það er von á honum seinni partinn á morgun, en á meðan erum við mæðgur hálf gras-legar. Þetta hefur nú samt gengið ágætlega hjá okkur, í gærmorgun fórum við til Ardenwood sveitabýlisins, þar sem Anna Sólrún var límd við mjöðmina á mér, enda öll dýr stærri en hún alveg ferlega ógnvekjandi – þó svo þau væru innan við girðingu. Hún fór á háskæla á þriðja “baaahi” hjá einni geitinni. Hænurnar tók hún hins vegar í fulla sátt. Ætli það sé ekki betra að hún treysti þeim ekki heldur en að hún lendi í vandræðum?
Í morgun fórum við svo í verslunarferð og keyptum meðan annars nærbuxur á Önnu Sólrúnu, enda ekki hægt að stunda bleiu-lausa tilraunastarfssemi nema eiga “My Little Pony”-, “Care Bears”-, “Hello Kitti”- og fiðrilda-nærbuxur. Við eigum hins vegar svolítið erfitt með að fara bara “Cold Turkey” úr bleiunum, því að a) leikskólinn gerir fastlega ráð fyrir því að krakkarnir séu í bleium, og þegar krakkar fara út bleium, þá er svo mikið að gera að krakkarnir gleyma sér víst oft, og b) hún pissar ennþá heilmikið á næturna, sem er kannski ekki skrítið miðað við alla mjólkina sem hún drekkur rétt fyrir svefninn. En sum sé, koppapælingar eru í fullum gangi á þessu heimili, og hver veit nema við eigum eftir að láta hana þefa að kúkfylltum nærbuxunum, slá á nefið á henni og halda í hnakkadramið á henni á meðan við látum hana heyra nokkur vel valin orð… (sjá Óla, 29. okt) 🙂