Miðvikudagur 16. nóvember 2005
Hitabylgja
Síðustu dagar hafa verið afskaplega góðir veðurlega séð, 25 stiga hiti og sól. Skrítið að standa með haustlaufin upp á ökkla í svona líka bongó-blíðu! 🙂 Við mæðgur erum því búnar að vera duglegar að fara út að leika, og Anna Sólrún er búin að vera sérstaklega dugleg að hjóla á öllum þeim tvíhjólum með hjálparadekkjum sem hún finnur! Núna getur hún alveg hjólað sjálf, þó svo hún eigi í smá erfiðleikum ennþá með að koma sér af stað. Þar sem hún er hjálmlaus geng ég svo hratt við hliðina á henni, en hún hefur ekkert dottið hingað til.
Það er nóg að gera hjá mér í vinnunni þessa dagana, er með “deadline” á öxlunum og þarf að krafsa mig í gegnum slatta af gögnum. Það varð til þess að Finnur var sendur út í Fry’s áðan að kaupa 300 GB harðan disk, svo ég geti hætt að stela plássi frá sjónvarpsupptökunum. Núna er ég bara með minn disk, og vona að hann lifi sem lengst… sjö, níu, þrettán!! 🙂 Annars er frekar ferlegt að mikill tími fer í bið hjá mér, bíða eftir að þetta og þetta keyri, en samt eru biðirnar það stuttar að maður getur ekkert auðveldlega snúið sér að einhverju öðru. Bleh. En sum sé, er með “deadline” á öxlunum svo ég spái svæsnum andlistútbrotum eftir tvær vikur. Fjör! 🙂