Þriðjudagur 4. október 2005
Ofgnótt af kleinuhringjum
Adda, Halli og Hildur Sif yfirgefa okkur annað kvöld, og til að vera hress fyrir flugið, þá var dagurinn tekinn rólega. Þau fóru að versla smávegis, og heimsóttu svo “Krispy Kreme” og keyptu 24 kleinuhringi (!!!), sem við erum svona búin að vera að mjatla á í allan dag. Það er nú samt eitthvað eftir ennþá…
Helsta fjörið var um helgina. Á laugardaginn renndi Þráinn við í bæinn og við keyrðum hann að sjálfsögðu í partý í Fremont! Þar hittum við Soffíu, Ágúst og fylgifiska, á meðal þeirra hann Kjartan sem var ágætlega hress eftir hremmingarnar fyrir mánuði síðan. Það er komið í ljós að heilaæxlið sem var fjarlægt var góðkynja eftir allt saman, svo það á ekki eftir að dreifa sér, en það munu vera einhverjar líkur á því að það vaxi aftur. Við vonum þó hér með sé sjúkrasögu Kjartans lokið!
Á sunndaginn hrúguðumst við inn í leigu-minivaninn og héldum upp í borg. Þar var kíkt á Golden Gate frá ýmsum sjónarhornum, borðaður góður matur, og svo keyrðum við um borgina, kíktum á Kína-hverfið, stóru byggingarnar og svo hommahverfið. Daginn enduðum við á “The Cheesecake Factory” sem verður að flokkast sem “stóra máltíð” heimsóknarinnar… 🙂
Í öðrum fréttum þá er Anna Sólrún núna búin ná ágætum tökum á tveggja-orða setningum, einn daginn þá sagði hún ekkert nema “strætó, meiri strætó”. Sum sé, allt var “meira xxxx”. 🙂 Svo er hún farin að herma eftir alveg hægri vinstri, ég var að elda einn daginn og sagði “Halli fer með þig út að leika” og hún hljóp út úr eldhúsinu hrópandi “Alli, údadlei-ga!”. 🙂
Í þriðjum fréttum þá fór ég á heilsugæslustöðina í dag og fékk að vita að ég er komin með bronkítis, og er með vatn inni á vinstri eyra. Er samt ekki komin með eyrnasýkingu ennþá. Ég fékk því astmalyf til að hjálpa lungunum að jafna sig, og slímlosandi fyrir eyrað. Astmalyfið fór ekki vel í mig fyrst, ég varð óvenju skjálfhent, en skammtur tvö virðist ætla að ganga betur. Við sjáum hvað setur.