Þriðjudagur 25. október 2005
Skot að heiman
Var að fara að slökkva á sjónvarpinu til að fara að sofa (ég var að lesa fréttir á tölvunni, sjónvarpið var á meðan stillt á “The Buffalo War“, alveg hrikalega depressing mynd um hvernig yfirvöld hafa/eru að drepa/flytja í burtu buffalóana sem fara út fyrir Yellowstone garðinn þar sem þeir eiga heima) þegar ég stillti í rælni á MTV-U og sá bara Ísland!! Jújú, var þar ekki komið Glósóla myndbandið með Sigur Rós, alveg ferlega íslenskt og öðruvísi.
Það var eiginlega öðruvísi á tvo vegu, ekki dökklituð manneskja í augsýn og engar lítið klæddar konur að dilla sér. En það var svei mér gaman að sjá íslenska mosann… 🙂 Hann rann jafn ljúflega inn og fiskibollurnar úr íslensku ýsunni sem voru í matinn fyrr í kvöld… 🙂
Við erum annars í smá vandræðum með hana Önnu Sólrúnu, kvöldið í kvöld er annað kvöldið þar sem hún rífur af sér bleiuna í rúminu og pissar í rúmið. Hún uppgötvaði það í gær að hún getur kallað til að fá að fara á koppinn, en í gær leið og beið og ekkert kom pissið í koppinn svo hún fór aftur í rúmið. Þegar þangað var komið tók hún af sér bleiuna og pissaði smá í rúmið sitt. Í kvöld sleppti hún hins vegar alveg koppa-partinum (eða þá að ég heyrði ekki í henni) og pissaði bara í rúmið. Ég er ekki frá því að ég hafi heyrt “oh, óóó” í henni þegar það gerðist.
Við sjáum hvað setur, kannski að maður ætti að fara að glugga í fræðslubækur um koppaþjálfun og hætta að spila þetta eftir skærgrænu eyranu?! 🙂 Á sama tíma er erfitt að vita hvort hún sé “tilbúin” og það flækir málið að öll börnin í hennar bekk eru með bleiu og ekki útlit fyrir að það breytist mikið í bráð. Hópþrýstingur er eeerfitt fyrirbæri, svo ekki sé minnst á hvað það er þægilegt fyrir kennarana að það er bara skipt á krökkunum öllum í einu… Ah well… best að skírða í rúmið. Þetta leysist vonandi af sjálfu sér! 🙂