Mánudagur 8. ágúst 2005
Kvefuð
Næturvaktin í síðustu viku virðist hafa rústað ónæmiskerfinu mínu og núna er ég kvefuð. Svo sem ekkert svakalega kvefuð, en kvefuð samt. Sniff. Það þýddi samt ekkert að væla mikið yfir því, því helgin var vel pökkuð. Á laugardaginn buðum við Sigga, Yvonne & börnum, ásamt Mark (vinnufélaga Finns), konu hans og barni í mat. Það var þröngt setið í litlu íbúðinni okkar, og reyndar kom gamla græna borðið og garðstólarnir sem við erfðum frá Lárusi og Þóru (sem erfðu það frá …) í góðar þarfir. Á matseðlinum var heilsteiktur lax með mango-chutney og pisstassíó hnetu-fyllingu frá Hollu (sem erfði uppskriftina frá…).
Á sunnudeginum fórum við í sund sem var fjör og síðan elduðum við pizzu með Augusto og Söruh. Það var eftir að ég fór svöng í búðina og keypti mat fyrir 11 þús ísl. krónur. Anna Sólrún stóð sig eins og hetja í lauginni að venju og núna er ég að velta fyrir mér hvort ég eigi að fara með hana í vetur líka, þó svo að það sé kaldara…
Hvað um það. Í morgun fórum við svo og hittum Yvonne og börn og fórum í sund með þeim í “komplexinu” sem þau hafa búið í undanfarinn mánuð. Merkilegt nokk þá er þetta sama “komplex” og Sólveig og Arnar bjuggu í um árið! Laugin var pínku köld, en það stoppaði hvorki Ísold né Önnu í buslinu. Á eftir fórum við svo í heitan pott, og bara til að prófa tók ég Önnu úr sundvestinu. Það fyrsta sem hún gerði var að ætla að setjast niður og þá fór hún hálf í kaf… 🙂 Úbbsss!! En hún fór sér ekkert mikið á voða samt, og fljótlega var sundvestið komið á aftur.
Eftir hádegi var hálfgert slen á mér, en ég fór niður á skrifstofu og prentaði út myndir af gögnunum sem við fengum í síðustu viku, átti “standandi fund” með leiðbeinandanum mínum í stiganum þar sem ég var að fara og hann að koma. Eftir það lá leiðin á leikskólann þar sem ég “vann” í tvo tíma við að leika við krakkana. Núna er ég svo ein heima því Finnur er að spila $2 póker hér skamt frá, það finnst honum nefnilega alveg gríðarlega skemmtilegt. Þar sem að mesta tap er $2 þá kvarta ég ekki mikið, amk miklu minna en þegar fyrsti hópurinn sem hann spilaði með var kominn upp í $10 per viku!!
Ætli það sé ekki best núna að skríða í rúmið með “Freakonomics” og lesa um það hvað maður á að skíra börnin sín, eða öllu heldur, hvort það skipti yfir höfuð nokkru máli hvað maður skírir börnin sín!! 🙂