Fimmtudagur 18. ágúst 2005
Fyrir-hádegis-frelsi
Við mæðgur höfum verið óvenjulega aktívar undanfarna morgna, sérstaklega eftir að við föttuðum að ég get fengið bílinn þá morgna sem Finnur fer ekki í leikfimi og gert alls konar óskunda (lesist: get eytt peningum). Eina kvöðin er að mæta í vinnuna til Finns nægilega snemma á hádegi til að við náum að keyra Önnu Sólrúnu á leikskólann. Síðan keyrir Finnur aftur í vinnuna (ca. 15 mín hvora leið). Þetta fyrirkomulag þýðir að ég þarf ekki að fara að ná í Finn um 6-leytið, þegar umferðin er í hámarki og Anna Sólrún glorhungruð. Sum sé, breyting til hins betra! 🙂
Á þriðjudaginn hittum við til dæmis Berglindi, Sólveigu og Peggy ásamt börnum í Great Mall, þar sem ég fór hamförum og keypti tæplega 20 síðerma boli á Önnu Sólrúnu fyrir veturinn. Hún er svo svakalega duglega að fá bletti í peysurnar sínar (og við báðar reyndar) að ég ákvað að kaupa bara allt sem mér leist ágætlega á, og þess fyrir utan var ég á frekar mikilli hraðferð, enda bara ein og hálf klukkustund til stefnu!! Ekki mikið um yfirvegaðar ákvarðanir þar!! 🙂 Í gær fórum við svo til Berglindar í heimsókn og hittum hjá henni Eddu, sem kom með Lilju Ýr og Elísabetu.
Sú morgunstund var nú kannski ekki sú rólegasta því Anna Sólrún var skapvond allan tímann, en hún er búin að vera með tannverk (að við höldum, líklega jaxla-sería #2 á ferðinni) alla vikuna. Á þriðjudaginn var hún svo slæm á leikskólanum að hún fékk kommentið “NOT a good day” í dagslok, enda var hún víst dramadrottning hin mesta og lemjandi barn og annað! Ég gaf henni því verkjalyf eftir pirringinn á miðvikudagsmorningum og hún svaf frá 1 til 4 á leikskólanum (!!!), enda líklega orðin örmagna eftir lélegan svefn undanfarinna daga. Einn leikskólakennarinn sagði að allir hefðu orðið mjög glaðir með að endurheimta “góðu gömlu Önnu sína” aftur þegar hún vaknaði! 🙂
En ég er sem sagt vakandi allt of seint. Ætli ég geti ekki kennt súkkulaðinu um það?! Ég var nefnilega að baka súkkulaðiköku áðan, a la Hollu, því ég ætla að halda saumaklúbb annað kvöld, (minn fyrsta klúbb í heila og hálfa eilífð) – og að sjálfsögðu varð ég að smakka súkkulaðið!! Koffín-þolið mitt er greinilega u.þ.b. í núlli…!! En sum sé, saumó annað kvöld, svo ætli ég vinni ekki bara lítið sem ekkert á morgun (svipað og í dag… bara náði ekki að vefja hausinn um eitt stykki vandamál) og njóti þess bara að búa til eitt stykki klassískan brauðrétt og svo aðra saumó-hluti. Svo þarf víst að þrífa íbúðina… og kominn tími til!!
Gleði dagsins var að kaupa dagatal á vegginn fyrir $2, því núverandi dagatal endar á ágúst. Það keyptum við í bókabúð sem selur dagatölin alltaf ódýr, og gömul dagatöl extra ódýr! 🙂 Nýja dagatalið er voða sætt, með krúttlegum teiknuðum músamyndum (mýs sem fólk þema), og kemur í staðinn fyrir “spörum vatnið” dagatalið sem við fengum frá Guðrúnu og Snorra því Sif vann “spörum vatnið” málsháttarkeppni. Þess fyrir utan keypti ég líka “Blink” bókina í CostCo. Erfitt að slá höndinni á móti bókum á næstum helmingsafslætti.
Svo var líka frekar skemmtilegt að horfa upp á greyið Finn lesa fyrir Önnu Sólrúnu áðan. Hann var frekar örmagna greyið og hver blaðsíða hljómaði svona: “Sjáðu …”. Ég lagði (kurteisislega, eða öllu heldur “picky, picky”) til að hann reyndi að spinna upp sögu með myndunum eða gera þetta aðeins meira “lifandi” (allur textinn á ensku) og þá tók hann upp á því að þýða textann svo til beint úr bókinni – sem var frekar fyndið. Anna Sólrún tók þessu stami hjá pabba sínum með ótrúlegu jafnaðargeði, en undir lokin þá var hún nú farin að iða heldur mikið… 🙂 Ætli ég leyfi honum ekki bara að “sjá” sig í gegnum bækurnar héðan í frá, heheh… 🙂 (Hmmm, er ég nú mikið betri…?! 🙂
Því miður átti Anna Sólrún erfitt með að sofna í kvöld, eins og öll önnur kvöld í vikunni, en það var erfitt að segja til um en hvort það voru tennurnar eða ekki. Vonandi verður næsta vika betri… Ok, best að hætta þessu frekar “hoppandi í eitt og annað” blaðri. Löngu kominn svefntími!