Mánudagur 4. júlí 2005
Þjóðhátíðardagur
Erum öll heima í dag því það er frídagur í vinnunni. Förum líklega í grill á eftir til Todds sem var að kaupa sér raðhús núna nýlega, og er núna búinn að innrétta það þökk sé aðstoð foreldra sinna sem eru í heimsókn. Hér (sem annars staðar líklega) hanna nefnilega mæður íbúðir syna sinna… 🙂
Annars var gaman í gær, við Anna fórum í göngutúr í fjöllunum með Augusto og Söruh á meðan Finnur var heima og klippti saman gömul vídeó af Önnu Sólrúnu. Við komumst upp og niður fjallið í bílnum án þess að Anna Sólrún yrði veik, svo það var ágætis afrek.
Í dag var ég svo að fremja prakkarastrik, en ég var að kaupa miða á Green Day tónleikana sem verða í San Fran núna 24. september. Ég er alveg nett fallin fyrir hljómsveitinni núna þegar þeir eru á hápunkti á ferlinum. Hópdýr, það er ég. Prakkarastrikið felst aðallega í því að það er svo til ómögulegt að fá miða á gólfinu (ekki í stúku) eftir “löglegum” leiðum, svo ég keypti endurselda miða á tvöföldu verði, ahemm… Mér fannst það nú reyndar sæmilega sloppið því flestir hinir miðarnir sem ég fann voru á þreföldu til áttföldu verði! Hvað um það, seinni parturinn af prakkaraskapnum er að Adda og Halli verða í heimsókn hjá okkur þegar tónleikarnir eru, spurning hvort maður fái pössun!! 🙂 Eða ef þau verða í Seattle, þá reddum við þessu einhvern veginn bara… 🙂