Miðvikudagur 6. júlí 2005
Hiti og lystarleysi
Anna litla varð veik í dag, reyndar var hún ekki alveg við góða heilsu í gær, með hálfgerðan niðurgang, en í dag fékk hún hita fyrir alvöru, byrjaði í 38.5C og var komin upp í 39.6C eftir hádegi. Hún var algjörlega lystarlaus meirpart dagsins, saup smá mjólk, og muldi kex og baunir, en harðneitaði jarðarberjum og vildi bara smá seríós. Fyrir kvöldmat gaf ég henni því hitastillandi tylenol og hún hresstist mikið við það og borðaði ágætlega.
Hún verður samt örugglega heima á morgun aftur, og það fer eftir heilsunni hvort við sitjum heima og lúrum (og ég stressa mig á því að ná ekkert að vinna) eða við förum í búðir og látum tímann líða (og ég stressa mig á því að ná ekkert að vinna).
Þess fyrir utan var dagurinn fengsæll, því Þóra og Lárus voru að tæma íbúðina sína því þau voru að fara aftur til Íslands eftir tæpa ársdvöl hérna úti. Þau komu með hvern pokann á fætur öðrum af eldhúsbúnaði og mat, þar á meðal var íslenskur ópal og lakkrís! 🙂 Nú eigum við því alveg hrúgu af nýju dóti og þar á meðal pönnukökupönnu og “möffins” bökunarfat! Takk fyrir það! 🙂