Þriðjudagur 12. júlí 2005
Hitabylgja
Það er spáð 30-31 stiga hita næstu fjóra daga, og það er nú þegar orðið vel heitt úti. Við gerum ekki mikið á meðan, förum í mesta lagi í sundlaugina ef við nennum. Síðustu dagar hafa verið sæmilega annasamir: Anna Sólrún jafnaði sig af hitanum á fimmtudeginum og fór aftur á leikskólann á föstudeginum. Á laugardegi fór Finnur í paintball, en ég reitti arfa hjá Guðrúnu og Snorra sem eru að íhuga að selja húsið sitt og flytja í skemmtilegra skólahverfi fyrir Sif (og nær vinnunum sínum).
Á sunnudegi lögðumst við í víking og keyrðum í klst norður á bóginn til að mæta í 2ja ára afmæli Flóka Fannars sem var hin fínasta skemmtun. Í gær leit svo út fyrir að allt væri fallið í rólegar skorður þegar Finnur fór á leikskólann í vinnuskylduna… en þá vildi svo illa til að Anna Sólrún ældi upp öllu magainnihaldinu, líklega því það festist eitthvað í hálsinum á henni. En það var ekki við fóstrurnar tautað né raulað, enginn sá matinn hrökkva ofan í hana og því voru þau send heim hið snarasta með þau fyrirmæli að mæta aftur á miðvikudaginn.
Við mæðgur erum því einar heima í þriðja skiptið á tveimur vikum og núna er hún að mála. Ef hún kúkar núna á næstunni þá förum við líklega í sund, annars höngum við bara heima í mollunni…