Fimmtudagur 28. júlí 2005
Míní-dýragarður
Flókin saga sem endar þannig að við erum á auka bíl í bili: Snorri keyrði fyrir stuttu Soffíu, Ágúst & Co. út á flugvöll á þeirra eigin bíl, og geymdi hann síðan hjá sér. Í gærkvöldi keyrði svo Finnur Snorra & Co. út á flugvöll í bíl Ágústar og Soffíu, því mínivaninn þeirra Snorra & Co. var svo snyrtilega lagður inn í bílskúr (með millimetranákvæmni) að þau þorðu ekki að taka hann út aftur. Við erum því með risa “söb-örbaninn” þeirra Ágústar og Soffíu í “láni”, þó svo að við höfum í raun aldrei fengið hann “lánaðan”.
Við vonum því að þau fyrirgefi okkur að Finnur fór á “söb-örbanum” í vinnuna í morgun, svo ég gæti farið á okkar bíl að hitta Yvonne & börn í dýragarði hérna í nágrenninu. Við sem sagt mæltum okkur mót í þessum krúttlega míní-dýragarði og skoðuðum þar endur, kanínur, fugla og “bobcats”, og kominn tími til, því Anna Sólrún kann fullt af dýranöfnum og hljóðum, en hefur séð fæst dýranna sjálf. Það kæmi mér ekkert á óvart að hún héldi að kýr væru jafnstórar og hænur…
Eins og gengur og gerist, þá held ég að Yvonne sé búin að þræða meiripartinn af skemmtilegum görðum og söfnum fyrir börn á svæðinu á þessum stutta tíma sem þau eru búin að vera hérna. Kannski að ég þurfi að vera duglegri að hertaka bílinn á morgnana til að fara í skemmtiferðir? Amk held ég að við þurfum að nota frímiðana sem Þóra og Lárus gáfu okkur í San Fran Zoo, sem er “alvöru” dýragarður. Ég vona bara að þar séu líka kýr.
Því verður ekki neitað, Húsdýragarðurinn í Laugardalnum er snilld. Maður finnur fyrir því hvað maður er “dýralaus” þegar 90% af öllum barnabókum ganga út á dýr, og þau er hvergi að finna í raunveruleikanum!!! Það hlýtur líka að vera ruglandi að dýrin segja mismunandi hluti á mismunandi tungumálum. Á íslensku segja kindur “meee” en á ensku segja þær “baaah”. Gjörsamlega út í hött!!