Mánudagur 20. júní 2005
Hvenær kemur sumarið?
Til hamingju með afmælið mamma!! Við vonum að heilsan fari að lagast!! 🙂
Héðan úr sólarríkinu er allt ágætt að frétta, nema hvað að það er ekki ennþá komið sumar. Okkur er svo sem nokk sama enda vel byrg af flíspeysum, en (íslenskir) Kaliforníubúar klóa sér í kollinum yfir því að það skuli hafa verið verra veður í Kaliforníu en á Íslandi þann 17. júní!
Dagskrá dagsins var með hefðbundnu sniði, við mæðgur fórum út í búð í morgunsárið að versla í matinn – en í þetta sinn dró ég með okkur hjólið mitt með brotnu teinana og lét laga það. Svo var borðaður hádegismatur og ég skar niður “snakk” fyrir leikskólann. Því næst fór Anna á leikskólann og ég vann smá. Klukkan fjögur mætti ég og vann mitt “co-op” á leikskólanum og það gekk vandræðalaust fyrir utan að einn strákurinn náði að bíta annan illilega í bakið yfir einhverjum bolta, rétt fyrir framan nefið á mér… Það var ekki gaman. En betur fór en á horfðist og sá bitni tók þessu ótrúlega vel.
Síðan eyddum við kvöldinu í að horfa á tveggja vikna skammt af The Daily Show með Jon Stewart, enda ekki hægt að vinna eftir að hafa unnið á leikskólanum. Ég gæti sko aldrei verið fóstra, það er allt of erfitt!!
Það er lítið af viti planað fyrir þessa viku, helst þarf ég að reyna að veiða sjálfa mig upp úr “slumpinu” frá því í síðustu viku þar sem ég var meira eða minna óstarfhæf. Ég veit ekki hvort það var eitthvað sem ég át en ég var algjörlega ónýt, ótrúlega syfjuð og sofnaði bæði á mánudeginum og fimmtudeginum um leið og Anna var farin á leikskólann. Kannski að það hafi verið veðurtengt, því ég get svo svarið það að um leið og að það kemur lægð, þá vil ég helst sofa allan daginn…