Sunnudagur 29. maí 2005
Löng minningarhelgi
Á morgun minnast Bandaríkjamenn hermannanna sinna (what else?!) og þá er almennur frídagur. Þetta er því “löng” helgi. Við erum búin að vera nokkuð upptekin undanfarna daga, á föstudagskvöld var afmælisboð hjá Deirdre vinkonu og svo saumaklúbbur hinum megin við flóann. Í gær, laugardag, vorum við heima framan af og ég setti myndir á netið (var komin í mánuð í mínus á ný) en síðan fórum við til að leigja köfunargræjur og stoppuðum í svona ofur-kringlu.
Fórum reyndar bara í eina ofur-búð í ofur-kringlunni en fundum þar allt sem þurfti fyrir köfunarferð morgundagsins. Það voru hlutir eins og fötur og skóflur fyrir Önnu, sundvesti með kork, meira dót fyrir Önnu og svo tvö barnalök fyrir barnaheimilið því núna eigum við að mæta með okkar eigið teygjulak og teppi í hverri viku.
Í dag vöknðum við svo fyrir allar aldir og vorum komin niður í Monterey rúmlega átta í morgun. Þegar við vorum að koma okkur fyrir á ströndinni sáum við viðvörunarborða í smá fjarlægð frá okkur, en þegar betur var að gáð var þar lítill selskópur sem ekki mátti trufla. Hann var víst að bíða eftir mömmu sinni sem var í fæðuleit. Þegar leið á daginn jókst mannsfjöldinn hins vegar og undir lokin kom eitthvað fólk (líklega frá sædýrsafninu neðar í götunni) með búr og tók kópinn bara! Ætli þau hafi ekki verið farin að hafa áhyggjur af því að mamman væri búin að yfirgefa hann út af öllum mannfjöldanum, en selir eru víst mjög feimnir.
Mér fannst þetta alveg svakalega leiðinlegt allt saman, og skil ennþá ekkert í því að hverju þeir lokuðu ekki bara ströndinni alveg. En það er víst erfitt því ströndin er í hjarta bærjarins og ekki nóg með að það sé fólk að labba á ströndinni, heldur voru líka kafararar, “snorklarar” og fólk á kajökum rétt úti fyrir ströndinni. Það var reynar líka óvenjumikið af af selum og sæljónum nálægt landi, en enginn þeirra fór á land til kópsins, þó að hann væri kominn alvg í flæðarmálið. Ég vona bara að kópnum verði skilað aftur í kvöld til að sjá hvort mamman lætur sjá sig…
Anna stóð sig annars ágætlega á ströndinni, elti mávana, mokaði smá, henti skeljum í sjóinn og buslaði aðeins, en sjórinn var ííískaldur. Besta dótið af öllu var samt vatnsflaska með svona “sport-stút” og litlu plastloki yfir stútinn sem fór ósjaldan á hliðina og í sandinn. Nú er bara að bíða eftir því að allur sandurinn skili sér í gegnum meltingarkerfið! 🙂
Eftir köfunina fórum við á Íslendingastaðinn í Carmel, borðuðum þar hádegismat, og síðan keyrði ég heim. Það var ekki mjög skemmtileg bílferð því Finnur og Anna voru bæði sofandi í aftursætinu og sendu út alveg hrikalegar svefnbylgjur, svo ég var á taugum alla leiðina með að ég myndi líða út af. En með góðu lagavali, velvöldum hálsteygjum og köldum blæstri hafðist þetta slysalaust og við komumst heim, þar sem mitt fyrsta verk var að hrynja í rúmið og láta undan svefndraugnum!