Sunnudagur 17. apríl 2005
Yosemite
Við komum heim áðan frá Yosemite, sem er gullfallegur þjóðgarður hérna fyrir austan okkur. Hér heima biðu okkar Hólmfríður og Óli með kvöldmatinn svo til tilbúinn á eldavélinni – en þau voru líka í Yosemite í dag!! Við sem sagt mæltum okkur mót þar í gær, en þá komu nokkur babb í bátinn sem urðu til þess að við hittum þau aldrei, jafnvel þó að við hefðum gengið eftir alveg sömu stígunum!
Það sem fór úrskeiðis var meðal annars að 1) við vorum aldrei alveg búin að plana hvar eða hvenær við ætluðum að hittast né panta gistingu, 2) það er ekkert farsímasamband í Yosemite, 3) þau voru austan við Yosemite (í Nevada) þegar þau lögðu af stað þangað og þá kom í ljós að allir vegir yfir Sierra Nevada fjöllin voru lokaðir, nema vegurinn í gegnum Tahoe, sem er lengst fyrir norðan!!! Þau sem sagt keyrðu eins og geðveikar fjallageitur í allan gærdag og mættu loksins í Yosemite um 11 um kvöldið!
Við hins vegar keyrðum austur eftir í algjörum rólegheitum, svo miklum rólegheitum að það tók okkur 7 tíma að komast þangað – en ferðin á að taka milli 4 og 5 tíma! Þar réð mestu um að við stoppuðum til að borða hádegismat, og rétt áður þá ældi Anna Sólrún. Hún verður nefnilega frekar illilega bílveik. Ælan fór öll í handklæði sem við svo þvoðum á skyndibitastaðnum.
Eftir að við sáum hvað handklæðið var notadrjúgt þá stoppuðum við næst í Target þar sem við keyptum fleiri handklæði og Anna Sólrún kom úr felum sem svakalegur fatahámur! Hún bara gat ekki hætt að ná sér í föt til að draga um á eftir sér! Svo lögðum við af stað aftur og stoppuðum með litlu millibili til að hleypa henni út úr bílnum, ganga með hana, gefa henni aðeins að borða og taka myndir.
Við mættum um 6-leytið í garðinn (sem er í raun djúpur dalur með þverhnípta klettaveggi á báða bóga) og fengum leigðan upphitaðan kofa í staðinn fyrir óupphitaða tjaldið í Camp Curry sem við höfðum fyrst pantað þegar við hringdum loksins í herbergjapöntunarsímann. Það var bara út af því að konan sá aumur á okkur og okkar 15 mánaða barni í næturkuldanum (við frostmark) og það vildi svo til að einn kofi (þeir eru allir upppantaðir með margra mánaða fyrirvara) hafði óvænt losnað.
Kvöldmaturinn var svona “buffet” eða hálfgert mötuneyti og við átum á okkur sæmilegt gat. Líka Anna Sólrún, sem varð fyrir því óláni að það festist biti í hálsinum á henni svo hún ældi. Það stoppaði hana samt ekki í því að klára kvöldmatinn og meira til! Ég var nú bara hálf gapandi yfir því.
Nóttin leið skrikkjótt, amk fyrir mig. Í kofanum voru tvo sæmilega breið rúm, og við Anna sváfum í öðru þeirra til að byrja með og Finnur í hinu. Svo tók Anna upp á því að velta út úr rúminu (!!!) – ekki mjög langt sem betur fer, og koddinn sem ég hafði troðið á milli tók af henni mesta fallið – svo hún endaði í nettu sjokki milli rúms og veggjar. Þá flutti Finnur sig yfir. Eftir mikið brölt og hóstakjöltur sofnaði hún loksins almennilega aftur, og næst þegar ég rankaði við mér um 5 leytið um nóttina var hún komin ofan á ábreiðurnar (hún var í bol, þunnri peysu og sæmilega þykkum buxum) og snéri á hvolf, svo hausinn á henni var við rassinn á mér! Stórhættulegt það!! Ég snéri henni við, breiddi ofan á hana og náði mér í auka ábreiður því Finnur var kominn með allar hinar… og við sváfum til 8.
Eftir að hafa borðað og skilað af okkur lyklunum (og spurst fyrir um Karlsdottir og Axelsson í n-ta skiptið) fórum við með ókeypis hybrid-dal-strætónum að Yosemite Falls og skoðuðum okkur um. Ótrúlega flottur foss og við á besta tíma því núna er mikið í öllum ám á svæðunum. Seinna í sumar þorna árnar og fossarnir upp. Við ráfuðum svo um svæðið, næst lá leiðin í gegnum Village Center þar sem við borðuðum og skoðuðum stöff. Næst ákváðum við að kíkja á Mirror Lake.
Leiðin að Mirror Lake var velgreiðfær kerrunni sem við vorum með (bara regnhlífarkerran í þetta sinn því við pökkuðum bara morguninn áður í algjöru hendingskasti og skildum stóru kerruna eftir) en svo tókum við upp á því að fara einhverja algjöra fjallabaksleið til baka og enduðum á því að burðast með kerruna og Önnu yfir hverja torfæruna á fætur annarri. Það var lítið fjör en það hafðist!
Því næst keyrðum við af stað heim og þegar við loksins komumst í farsímasamband kom í ljós að Holla og Óli voru rúmlega klst. á undan okkur og þau buðust til að búa til kvöldmat!! 🙂 Við ákváðum því að gefa svoldið í og vera ekkert að slóra við heimferðina, sem endaði í ælu númer 3 hjá greyið barninu, sem svo hélt áfram að háma í sig appelsínur og epli og varð gjörsamlega hæper nokkru seinna. Kvöldið leið svo yfir góðum mat og myndasýningum, en Holla og Óli eru búin að vera á “road trip” frá því á fimmtudaginn. Gaman gaman, en súrt í broti að við skyldum ekki ná að finna þau þarna í dalnum…
P.s. Við erum himinlifandi með að hafa sloppið svona vel með bílveikina hjá Önnu Sólrúnu. Það var t.d. ein stelpa veik í dal-strætóunum (vont loft þar inni) og svo stoppuðum við ekkert síðustu tvo tíma á leiðinni heim.
P.p.s Við hittum aldrei Hollu og Óla en við hittum annað par amk fimm sinnum ef ekki oftar, þar af einu sinni á leiðinni heim! Bizarre!