Þriðjudagur 19. apríl 2005
Bráðum ein í hreiðrinu
Þau Holla og Óli eru við það að yfirgefa okkur, þau fljúga til Boston í kvöld. Það verður því tómlegt hérna hjá okkur, svo ekki sé minnst á ísskápinn sem er fullur af “undarlegum” mat!
Annars fór ég með Önnu Sólrúnu í skoðun í gær, hún mældist 11.25 kg, 81 cm á lengd og með 48 cm höfuðummál. Hún fylgir kúrvunum ágætlega, er reyndar komin niður á 85% í hæð, heldur sig í rúmum 50% í þyngd. Hins vegar var ég svo pirruð eftir læknisheimssóknina að ég er að íhuga að skipta um barnalækni! Sem stendur erum við á þriðja barnalækninum hjá Stanford spítala, sá fyrsti var voða indæll en hann útskrifaðist þegar Anna Sólrún var hálfs árs. Sá vísaði okkur á annan læknanema sem var líka indæll (kannski svoldið skrítinn) og þriggja barna faðir. Síðan var Anna af einhverju óútskýranlegum orsökum bókuð hjá þriðja lækninum sem í þetta sinn var kvenkyns.
Við hittum hana fyrst fyrir 3 mánuðum og þá flippaði Anna Sólrún gjörsamlega yfir þegar hún ætlaði að skoða hana. Ég ákvað samt að vera ekki að rugla meira í kerfinu og pantaði tíma hjá henni aftur. Í þetta sinn þurftum við hins vegar að bíða eftir henni í heilan klukkutíma (hún kom þegar við vorum búnar að bíða í 20 mín, sagðist eiga 10 mín eftir með einni fjölskyldu, en það tók hana 40 mín að klára það dæmi!)og á meðan hljóp Anna Sólrún eftir göngunum á spítalasloppnum einum saman. Það hjálpaði ekki að Anna litla var sofandi þegar við mættum, en ég þurfti að vekja hana svo hjúkkan gæti mælt hana. Eftir það var bara bið, bið, bið…
Þegar við komumst loksins að þá var skapið í Önnu orðið stutt, ég hafði ekki pakkað mat fyrir svona langan tíma, og þó svo að hún léki sér fínt inni í skoðunarherberginu, þá gjörsamlega trompaðist hún þegar það átti að hlusta hana og tók ekki hlustunarpípuna í mál! Þannig að nú er ég að velta fyrir mér að skipta um barnalækni og þarf að komast að því hvort maður geti komist í svona “kynnistíma” til að athuga hvort læknirinn kunni að taka á því þegar börnin eru ekki samvinnuþýð og séu “rólegir”. Ég fékk það nefnilega rosalega sterkt á tilfinninguna að þessi kvenlæknir væri svoldið stressuð, og stressið smitaði út frá sér.
Svo velti ég fyrir mér hvort ég eigi að skoða mismunandi spítala líka, því við erum alltaf að lenda í því að þurfa að bíða í amk 20 mínútur eftir að læknirinn hafi tíma fyrir okkur… En kannski er það bara alls staðar svoleiðis?!? Ef svo er þá líklega fer ég aftur til læknis númer tvö… Blegh!