Laugardagur 23. apríl 2005
Staðbundin af-duddun
Það hefur gengið alveg rosalega vel af af-dudda Önnu Sólrúnu, eftir grátkastið mikla morguninn sem snuðið hvarf (ég fann það loksins í dag eftir meiriháttar tiltekt) þá hefur bara ekki verið neitt mál að svæfa hana. Hún spyr reyndar reglulega um dudduna en sættir sig að mestu við að hún sé “týnd” og að dudda “datt”. Hún er reyndar komin með nokkra bangsa í rúmið en við ætlum að reyna að passa upp á að einhver einn bangsi verði ekki alveg bráðnauðsynlegur heldur hafa þá bara nokkra við höndina. Annars verðum við komin með duddu-bangsa á nó-tæm! 🙂
Helst gerðist það í dag að hún fór í bíl í fyrsta sinn eftir duddu-tapið og þá var grátið, enda tilheyra duddur bílum í hennar huga. En hún jafnaði sig á endanum og sofnaði meiri að segja svo núna erum við vonandi búin að af-dudda hana á öllum stöðum sem skipta máli. Annað kvöld ætlum við líklega að heimsækja Guðrúnu og Snorra og þá er spurning hvort hún nái að sofna hjá þeim, duddu-laus… hmmm…
Annars hefur það helst gerst að Sólveig Kjartans hélt rosafínan saumó í gærkvöldi. Borðin hreinlega svignuðu undan veitingum!! Ég komst hins vegar að því í morgun að ég er orðin of gömul til að glundra í kokteilum þótt þeir séu svo þunnir að það finnist ekkert áfengisbragð. Amk var maginn á mér ekki alveg sáttur við sitt í morgun þótt það hafi nú ekki verið neitt alvarlegt. Ég er sem sagt orðin partýglöðum löndum mínum til skammar… 😉
Í dag lagði ég svo í að fara í hólana tvo af of litlum barnafötum sem voru búnir að hreiðra um sig í svefnherberginu okkar. Það var voða gaman, en núna veit ég ekkert hvað ég á að gera við fötin sem eru alveg hryllilega blettótt með þvílíka brúna bananabletti og ég veit ekki hvað. Einhverjar hugmyndir?
Seinni partinn fórum við svo og heimsóttum fyrrverandi vinnufélaga Finns, konu hans, barn og hund, og Anna Sólrún lék sér við litla strákinn alveg heillengi. Þau eltu hvort annað út um allt, eða öllu heldur Anna tók eitthvað sem hann vildi og þaut af stað og hann elti einbeittur. Svo fórum við örstutt út í garð og þá gerðist það að Anna Sólrún snerti trégirðinguna umhverfis garðinn og uppskar þrjár langar mjóar flísar í vinstri lófann. Við gerðum heiðarlega tilraun til að ná flísunum en gáfumst upp eftir mjög hávær mótmæli því þær gáfu ekkert færi á sér, auk þess sem þær virtust ekkert pirra hana Önnu Sólrúnu. Best að muna að kíkja á þær á morgun til að sjá hvernig þær líta út. Svo komum við bara snemma heim og núna eru feðginin bæðið sofnuð, hún uppi og Finnur á sófanum… Zzzz… 🙂