Sunnudagur 6. mars 2005
Kyrrt á vesturvígstöðvum
Helgin kom og fór. Ég sat mestan tímann inni við og barði höfðinu við stein yfir undarlegri hegðun þess sem matlab spýtti út úr sér. Mér stóð meira á sama en venjulega því á fimmtudaginn þarf ég að halda hópfyrirlestur og ég veit af fenginni reynslu að vikan er óhugnanlega fljót að líða. En það var sama hvað ég barði, ekki vildi Matlab segja mér hvað amaði að eða hvort það amaði yfir höfuð nokkuð að.
Á meðan nutu Finnur og Anna veðurblíðunnar sem var stórkostleg alla helgina. Stuttermabola-veður og ég veit ekki hvað! 🙂 Baldur og Sif voru meiri að segja í pössun hjá okkur í stutta stund á laugardeginum og Anna og Baldur skemmtu sér konunglega á leiksvæðinu í bakgarðinum. Þann daginn voru þau bæði smurð með sólarvörn í fyrsta sinn á árinu.
Núna er líka slétt vika þar til við mæðgur leggjum flugvélar undir fót og ferðumst til Íslands til að vera við fermingu Bjarna bróður. Finnur verður einn eftir heima í tvær vikur og fær að sooofa eins og honum lystir. Ég er örlítið abbó. En á móti kemur afslöppun heima á Íslandi í tvær vikur, ég sé fyrir mér sundferðir og labbitúra og matarboð í hyllingum! 🙂