Laugardagur 5. febrúar 2005
Hlaupabóluvika
Við mæðgur eyddum saman vikunni hérna heima því Anna Sólrún fékk víst væga hlaupabólu eftir bólusetningarnar í vikunni þar á undan. Það gekk svo sem ágætlega að vera heima, ég fékk bara ræktunarbakteríu og einn daginn röltum við (alveg óvart) út í garðyrkjubúð nágrennisins (sem er að sjálfssögðu svona “organic” og “non-profit”) og keyptum jarðarberjaplöntur, baunaplöntur, kálplöntur og tvö blóm. Það er nefnilega komið hálfgert vor hérna, tréin öll að blómgast og farið að hlýna aðeins.
Það gekk nú samt ekki mjög vel í byrjun með plönturnar. Ég komst að því þegar ég kom heim aftur og fór að skoða moldarblettina í bakgarðinum betur, að það eru græn plasthylki með mauraeitri í þeim báðum. Þar með hætti ég við að gróðursetja í garðinum sjálfum og ákvað því í staðinn að pota plöntunum niður í potta. Ég var ekki fyrr búin að sjá að ég þyrfti að útvega mér slatta af mold en Anna Sólrún náði í kálplöntubakkann (sem var uppi á borði) og ýtti honum út af – og hann lenti á jörðinni með kálið niður. 🙁
Ég gróðursetti því bæklað kálið með moldarleyfum sem ég átti og komst að því daginn eftir að spörfuglum finnst kál voða gott. Þeir pikkuðu því miður líka í baunaplönturnar, en ekki á jarðarberjaplönturnar, þó ég eigi eftir að sjá hvað þeir gera við sjálf jarðarberin… Að tveimur morgnum loknum var því lítið eftir af kálinu og ég verð voða hissa ef það lifir mikið lengur.
Mér tókst loksins að klára að planta plöntunum á föstudaginn eftir að ég hafði fundið moldarhaug í “community garðinum”. Ég endaði reyndar á því að setja gamlar pottaplöntur og þrjár jarðarberjaplöntur í annan moldarblettinn í garðinum (enda lengra í mauraeitrið í honum) og kláraði meistaraverkið með því að gera göt á glær plastglös og plastpoka og setti yfir kálið og baunirnar og festi allt niður með bambus-grillpinnum. Take that, you smáfuglar!! 🙂
Nú er bara að sjá hvað gróðurbakterían verður langlíf í ár en yfirleitt er hún heldur skammlíf… ahemm! 🙂
Af Önnu Sólrúnu var það hins vegar að frétta að hún var svo gott sem búin að ná sér á föstudeginum eftir hita frá mánudegi til miðvikudags og svo væg útbrot á fimmtudeginum. Vikan leið annars hratt enda ég óróleg því mín beið böggur í kóðanum frá mánudeginum sem ég komst ekki til að laga fyrr en á fimmtudagskvöld og svo var eðal saumaklúbbur hjá Guðrúnu á föstudagskvöldið. Hún kom síðan og heimsótti okkur með saumaklúbbsleifar í dag og endaði á því að passa Önnu Sólrúnu á meðan ég vann smá og Finnur hélt áfram leiftursókn sinni á bókhaldsóreiðuna okkar. Go Finnur! Og Takk Guðrún! 🙂