Miðvikudagur 16. febrúar 2005
Tuskuleg
Þetta var nú meiri dagurinn. Í fyrsta lagi þá svaf Anna Sólrún ekki vel, það var eins og hún væri með vindverki og ég var á næturvakt svo ég svaf ekki vel. Við lúlluðum reyndar aðeins í morgun, en klukkan 1 fór hún svo á leikskólann – og gekk þangað sjálf í skóm!! (Hún tók rauða skó frá Ölmu Hildi í sátt í gær! Jeii!! 🙂
Eftir að ég kom úr leikskólanum hentist ég til að laga matlab kóða og vista myndir til að geta sýnt á “litla” hópfundinum sem átti að byrja klukkan 2. Ég hjólaði í skólann því ég missti af strætónum við að vista myndirnar – en þegar ég var að ganga inn í skólabygginguna sá ég hvar næsti strætó keyrði framhjá. Á fundinum var farið í kringum borðið og hver sagði frá sínu, tíminn leið hratt og áður en ég vissi af voru bara 15 mínútur þar til ég þurfti að leggja af stað til að vera mætt klukkan 4 á leikskólann til að sinni minni vinnuskyldu.
Ég flýtti mér því að útskýra það sem ég hafði verið að gera í vikunni og í flýtinum hoppaði ég yfir hluti svo ég þurfti að fara fram og aftur og útskýra og svo vildi leiðbeinandinn minn fá nánari útskýringu á einhverju. Ég sagðist þurfa að fara eftir tuttugu sekúndur og hann sagði eitthvað eins og að ég þyrfti þess ekki sem gerði mig pirraða en útskýrði samt og fór síðan með miklu afsökunarflóði. Næst þarf ég að passa mig að fá að tala fyrr.
Hvað um það, ég hjólaði sem eldibrandur á leikskólann og þar tók við að taka til í herberginu (krakkarnir voru úti), skipta á bleium og gefa einum stráknum að borða. Svo setti ég í þvottavél og þurrkara og gekk frá þvotti og þá fann ég hvernig þreytan steyptist yfir mig. Það hjálpaði ekki til að Anna Sólrún var orðin lúin og skapstirð og við vorum því báðar glaðar að fá að fara heim tæplega sex.
Þegar heim kom vildi hún varla borða matinn sinn svo ég gaf henni krukku-kvöldmat, sem er orðið nokkuð sjaldgæft. Það hefði ég líklega ekki átt að gera því hún virðist ekki gera sér grein fyrir því hvað hún verður södd af svona niðurmöluðum mat, og þegar ég var að svæfa hana drakk hún of mikla mjólk og … ældi. 🙁
Sem betur fer erum við löngu búin að setja vatnshelt lak undir lakið okkar svo rúmið var í lagi, en það þurfti að spúla greyið litla og svo lognaðist hún út af. Finnur fór svo að spila póker við vini sína (jamm, fallinn í þann fúla pytt) og ég sat heima í kvöld og skipti þrjúhundruð sinnum á milli stöðva í þeirri veiku vona að finna eitthvað til að festast yfir, en það mistókst.
Loksins var klukkan orðin ellefu og Daily Show byrjaði, og sem betur fer var þetta góður þáttur því dagurinn er svo gott sem horfinn og í staðinn komið hálfglott á andlitið. Nú er bara að setja Finn á næturvaktina og þá verður allt gott. 🙂