Mánudagur 21. febrúar 2005
Tanntaka
Langa helgin var fljót að líða. Á laugardaginn laumaðist ég til að taka myndir af brúðkaupi dóttur eins EE prófessorsins hérna í Stanford (á eftir að fá leyfi til að setja þær á netið) og svo fengum við fyrrverandi vinnufélaga og frú og son í kvöldmat það kvöld. Á sunnudeginum ætluðum við að leita uppi snjó en þegar á reyndi þá var Anna Sólrún komim með einhvern hita, kvebba í nebba og hósta svo við hættum við það. Í staðinn fórum við bara vel klæddar út á leikvöll að sulla í pollum.
Það kom í ljós síðar um daginn að Anna Sólrún er líklega að fá enn eina tönnina, í þetta sinn er að koma tönn á milli framtannana og eins jaxlsins svo allar tennurnar þurfa aðeins að hliðra til. Um kvöldið fékk hún því verkjalyf enda erfitt að sofa þegar svona ósköp ganga á. Í dag mánudag voru Finnur og Anna í frí enda “forsetadagur” (pöh!) sem var kannski ágætt því Anna var frekar lítil þegar hún vaknaði. Fyrir morgunlúrinn fékk hún aftur smá verkjalyf og þá rotaðist hún í 2.5 tíma!! Eftir þann ofurlúr fórum við til Fremont að heimsækja Guðrúnu og Snorra. Þar keppti ég við Sif í dans-keppni á leikjatölvuna og svo köstuðum við á milli okkar bolta og vorum með alvöru griphanska. Á meðan voru Anna og Baldur úti að leika í garðinum.
Sem sagt ágætishelgi félagslega, en gjörsamleg vonlaus vinnulega. Nú er Anna enn og aftur komin með hita, og búin að fá verkjalyf. Vonandi fer nú tannskömmin að láta sjá sig svo lífið komist aftur í fastar skorður… Og já, síðan við fengum myndavélina á föstudaginn erum við búin að taka rúmlega 500 myndir. Hvernig í ósköpunum fór fólk að þegar það voru bara til filmumyndavélar?!? (Reyndar eru þónokkuð margar búnar að vera úr fókus eða eitthvað skrítnar, en inn á milli má finna góðar myndir… 🙂