Miðvikudagur 23. febrúar 2005
Kvebbavibbi og fiskur
Guðrún hetja fór í morgun og náði í 60 kg af frosnum þorski í frystigeymslu sem er staðsett ekki langt frá henni, og skutlaði fisknum svo hingað yfir brúna til okkar. Í dag var svo straumur af fólki að koma að ná í fisk, en við héldum eftir 5 kg fyrir okkur. Það verður því íslenskur þorskur á borðum hérna næstu vikurnar! 🙂
Annars var ég ekki heima þegar þorskinn bar að garði því ég fór út úr húsi fyrir 9 til að mæta á fund kvenfélags efnafræðinga til að stinga upp á smá samstarfsverkefni. Það var rosalega skrítið að taka strætóinn svona snemma, fullt af fólki að byrja starfsdaginn fyrir hádegi sem ég hef bara ekki gert í rosalega langan tíma. Eiginlega allt annar heimur þarna úti í alvöruleikanum.
Þegar ég kom heim aftur skömmu síðar þurfti Finnur að þjóta í vinnuna og hafði engan tíma til að skjótast út í búð fyrst, sem var óheppilegt því mjólkin var alveg búin. Ég ætlaði því bara að rölta með Önnu í kerrunni út í búð, en þá kom í ljós að það var sprungið á hlaupakerrunni! Í dekkinu stóð þessi 0,5 cm stóri járnnagli og því út um allar kerruferðir. Þar voru nú góð ráð dýr, enda Anna Sólrún allt of þreytt til að ganga alla leið í búðina.
Þá mundi ég eftir barna-bakpokanum sem við keyptum fyrir eina útileguna og vippaði Önnu því bara upp á bak og svo lögðum við fílarnir af stað í leiðangur! Ég fór að sjálfsögðu yfir um í búðinni og pokarnir voru svoldið þungir á leiðinni til baka, en Anna var bara kát á sínum útsýnisstað og vældi ekkert þó svo að það væri löngu kominn morgunlúrstími.
Restin af deginum leið hratt og núna er ég vakandi allt of seint og komin með andstyggðar kvef-hálsbólgu með svona dripp-dripp nefrennsli og eyrnateppu. Ó mig auma!! Ég get samt ekki kvartað því við bíðum ennþá með andköf eftir augntönnunum hennar Önnu Sólrúnar sem eru ennþá bara bólgur í tannholdinu. Ó hana auma! Og Ó Finnur aumi því hann er líka kominn með kvef. Óóóóóó…! 🙂