Laugardagur 26. febrúar 2005
Afmælisveisla og svefnþróun
Í dag fórum við í eins árs afmælið hennar Ödu, sem er með Önnu á leikskólanum. Ada og foreldrar hennar eiga heima í sömu götu og við, og við kynntumst þeim þegar við bjuggum í sömu blokkinni (sem er við endann á götunni okkar núna) fyrir næstum fimm árum síðan! Afmælið var skemmtilegt, með fullt af börnum á svipuðum aldri og nóg af gulrótarköku! 🙂
Eftir afmælið sofnaði Anna og svo ég líka og eftir að Anna vaknaði hélt ég áfram að sofa og svaf til 7 um kvöldið! Ég er sko nebbnilega ennþá með þetta bölvaða kvef… Þegar ég vaknaði voru Augusto og Sarah mætt og voru að elda kvöldmat! Ekki slæmt það! 🙂 Við enduðum kvöldið með því að spila með þeim Puerto Rico í fyrsta sinn.
Það sem var svo kannski merkilegast við þetta allt saman er að undanfarið þá er eins og Anna Sólrún sé búin að fá nóg af laglausri/hásri móður sinni og vill helst sofna sjálf í rúminu sínu! Þannig gaf ég henni núna að drekka og kom henni í smá ró, síðan færði ég hana í rúmið sitt, sagði susss og fór út úr herberginu. Stundum kemur þriggja sekúndna væl en í kvöld var hún bara afskaplega sátt við sitt hlutskipti og það heyrðist ekki múkk frá henni. Það hjálpar líklega að tennurnar eru ekki að angra hana eins mikið (þó þær séu ekki ennþá komnar) og að hún er minna kvefuð núna en oft áður. Það verður fróðlegt að sjá hvað það endist lengi… 🙂
Þetta byrjaði allt fyrr í vikunni þegar hún bara ætlaði aldrei að fara að sofna fyrir einn morgunlúrinn. Við vorum búnar að kúra í rúmlega klukkustund þegar ég missti þolinmæðina (Það gerist sko ekki oft, enda byrjaði ég stundvíslega á túr daginn eftir. Gott að vita að maður er kominn í sama hormóna-skapfarið aftur! Seinna sama dag fékk ég algjört súkkulaði-“kreiving” og hefði farið út í búð að kaupa mars ef ég hefði ekki fundið súkkulaðikökuleyfar í frystinum…!) og setti hana ákveðið í rúmið sitt og sussaði og fór út. Hún volaði og varla það í pínku-stund og sofnaði svo. Eftir það þá hefur hún ekkert haft á móti því að vera sett í rúmið sitt, og jafnvel átt í erfiðleikum með að sofna í rúminu okkar. Skrítið mál allt saman…
Hvað um það, var ég nokkuð búin að minnast á að hún getur borðað sjálf með skeið? Og bendir á og segir “bíbí” í amk einni bókinni sinni? Og heimtar að fara út að leika á daginn? Og finnst fiskur góður? Og segir “mmmm-mm-mmm” þegar hún borðar?… 🙂