Miðvikudagur 1. DESEMBER 2004
Anna Sólrún hermikráka
Það hefur verið alveg kostulegt að fylgjast með Önnu Sólrúnu þessa vikuna! Í fyrsta lagi er hún núna farin að dansa/dilla sér með allri tónlist og sem er sérstaklega fyndið þegar ég er að gefa henni að borða. Þá sitjum við á móti hvor annarri og dillum okkur sitjandi við hann Santana sem hefur verið á spilaranum undanfarna daga.
Svo er hún núna farin að segja “bæbæ”, “bless” og “bíbí”. Bæbæ og bless er tilkomið af því að við erum alltaf að fara eitthvert – Finnur fer í vinnuna, við mæðgur förum út úr íbúðinni, ég skil hana eftir á dagheimilinu, við yfirgefum dagheimilið o.s.frv. Bíbí kemur frá því að það stoppa stundum fuglar í bakgarðinum okkar.
Það allra sætasta var svo þegar hún var að reyna að herma eftir mér að hósta í gærkvöldi! Ég var nefnilega í skólanum og missti af strætónum til að ná í Önnu og labbaði/hljóp slatta af leiðinni svo ég yrði ekki of sein. Eins og allir vita sem hafa hlaupið úti í 5 stiga hita þá safnast ullabjakk fyrir í öndunarvegnum og ég var því hóstandi lengi vel eftir að ég náði í Önnu. Og hún reyndi að herma eftir mér! 🙂 Þvílíkt súperkrútt! 🙂
Hey og já… það er kominn DESEMBER!!!