Fimmtudagur 11. nóvember 2004
Seattle
Við Anna Sólrún flugum til Seattle núna í kvöld. Við vorum heldur betur heppnar því þegar við mættum á flugvöllinn og ég fór að tékka okkur inn á einni sjálfsafgreiðsluvélinni þá kom í ljós að vélin okkar var klst of sein – en þá stökk til flugfreyja sem spurði mig hvort við værum að fara til Seattle og bauð okkur svo að fá sæti í flugvélinni sem væri að fara! Við fórum því með flugi sem var klst fyrr á ferðinni, en á móti kom að það var að sjálfsögðu troðfullt.
Sem betur fer samþykkti sætafélagi minn að eftirláta mér gluggasætið enda hefði verið svo til ómögulegt að hemja Önnu litlu í miðsætinu. Oh my gúdness segi ég nú bara. Anna Sólrún var sko ekkert á því að lúlla þó svo að háttatíminn hennar hefði komið og farið… Í staðinn iðaði hún stanslaust í tvo tíma og ekki bætti úr skák að Indverjinn við hliðina á mér var að horfa á indverska mynd á fartölvunni sinni sem Önnu fannst að sjálfsögðu þokkalega spennandi!
Hún tók sem betur fer bara eitt grátkast, og það var ekkert rosalega alvarlegt, amk sagði flugfreyjan eftir á að hún hefði staðið sig mjög vel, betur en móðir hennar hélt amk!! 🙂 Á flugvellinum tóku Finnur og vinnufélagi hans, hann Carlos, á móti okkur og þá fóru 20 mínútur í að festa bílstólinn sem þeir félagar höfðu tekið á leigu. Eitthvað höfðu leiðbeininingar vafist fyrir þeim… 😉
En við lifðum sem sagt ferðalagið af og núna erum við á fínu hótelherbergi með internet-tengingu (jess!!) og það eina sem skyggir á gleðina við að vera búin að endurheimta eiginmanninn er að mér tókst að klemma mig illilega á kerrunni hennar Önnu svo nú er langatöngin mín á vinstri hönd öll bólgin… 🙁
P.s. Taly og Tom eignuðust lítinn strák í dag, Logan Oscar, 8 lbs og 20 tommur. Hún er í doktorsnámi í rafmagnsverkfræði eins og ég – en er komin talsvert lengra og ætti að útskrifast á næsta ári.