Laugardagur 13. nóvember 2004
Túristagildrur
Við túrhestuðumst í dag og fórum upp á toppinn á “Space Needle” enda ekki annað hægt. Fyrir það vorum við samt rukkuð um $13 á manninn sem var nú heldur blóðugt – en kom kannski ekki mikið á óvart eftir að hafa leitað að bílastæði í nágrenni við turninn fræga. Við enduðum á því að borga $6 fyrir fjóra tíma en hefðum auðveldlega getað borgað meira. Þar sem við vorum að ganga að turninum (og takandi myndir að sjálfsögðu) vatt sér að okkur maður og sagði okkur frá góðum útsýnisstað uppi á einni hæðinni sem væri ókeypis! Ætli hann hafi skammast sín fyrir rip-offið?
Eftir að hafa rölt í hring efst í turninum og tekið nokkrar myndir þá fórum í næstu byggingu til að fá okkur að borða. Þessi súper undarlega bygging reyndist hýsa “Experience Music Project” eða öllu heldur tónlistarsafn sem við enduðum á að borga $20 á manninn til að skoða. Safnið var hið flottasta, núna á ég t.d. mynd af mér við hliðina á rauða gallanum hennar Britney Spears (hún er þokkalega lítil!) og hef gripið í rafmagnsgítar!! 🙂
Að safnferðinni lokinni voru klukkustundirnar okkar fjóra uppurnar, og við fórum því aftur í bílinn þar sem Anna sofnaði. Við ákváðum því að keyra smá um og enduðum á því að finna útsýnisstaðinn sem maðurinn hafði bent okkur á – og hann var ekkert slor! 🙂 Þar voru líka amk þrjú ástfangin pör, en við Finnur fórum út úr bílnum til skiptis til að vekja ekki Önnu. Við reynum bara að leika “ástfangið par” einhvern tímann seinna!! 🙂
Eftir stutt stopp í búðinni að kaupa barnamat (maður er orðinn svo vanur góða organic úrvalinu í Kaliforníu að það var smá sjokk að koma hingað) þá fundum við okkur grillhús og fengum okkur kvöldmat áður en við héldum heim á hótel aftur. Þar sem við vorum að mæta á hótelið hittum við fullt af fólki sem var á leiðinni út á “lífið”. Mikið erum við orðin gömul!!
Á morgun er síðasti dagurinn hérna, við förum líklega í dýragarðinn og kannski á “Museum of flight” því mig hefur pínkulítið langað í mynd af mér við Concorde flugvél… Við sjáum hvað setur. Flugið fer ekki fyrr en klukkan 8 svo það er nægur tími til stefnu…