Laugardagur 20. nóvember 2004
Heilsu-öppdeit
Jæja, þá er laugardagurinn kominn og farinn og ég er ennþá heil heilsu. Þorir maður að vona að maður sleppi?!?! Við sjáum hvað setur… Finnur lá í rúminu í allan gærdag með beinverki og almennan slappleika og þá kom sér nú vel að við erum búin að vera að taka upp sjónvarpsþætti á tölvunni okkar (hún er nýja vídeótækið okkar)! Þar með gat Finnur því bara legið uppi í gestarúmi með fartölvuna og horft á Quantum Leap, Daily Show og 60 mínútur á meðan við mæðgur dúlluðum okkur niðri. Á móti kom að hann fór í bakinu við alla þessa rúmlegu!!!
Anna var sem sagt á batavegi í gær, fékk smá graut og svona í viðbót við mjólkina, þangað til að ég gaf henni grænar baunir í miðdegismat. 🙁 Þær komu allar öfugar upp úr henni og þá fór ég í smá panikk móde og gaf henni aftur smá mjólkursopa á 15 mín fresti. Þegar kom svo að því að fara að sofa var hún sko ekkert á þeim sokkunum, sem þýddi að ég mætti ekki fyrr en um seint og síðir í saumó til Berglindar. En mikið var gott að mæta í saumó! Ég held að ég hafi verið orðin ansi tæp á geðheilsuni eftir að hafa verið föst innan dyra svona lengi…
(Ástæðan fyrir svefnvandræðunum var líklega einn jaxl sem var að koma núna. Á þessari viku er hún sem sagt komin með tvo jaxla… Geri aðrir betur!!)
Ég slapp reyndar líka út í klst á fimmtudagskvöldinu… Þá fór ég í Ikea og keypti tvær hillur í viðbót við búslóðarsafnið. Það tíðkast nefnilega (stundum) í minni fjölskyldu að kaupa sér húsgögn og/eða græjur þegar á móti blæs og maður þarf smá útrás. Hillurnar reyndar smellpössuðu í stofuna sem er hér með opinberlega orðin full. Ég held að það sé bara hálfur metri af vegg sem er ekki með húsgang upp við sig. 🙂 Núna er ég líka loksins komin með nóg skápapláss til að ég geti haft kerti uppi við og hent öllum helv. pappírunum eitthvert annað en á eldhúsborðið. 🙂
En svo maður komi nú aftur til nútímans þá eyddum við deginum í 8 ára afmæli hjá Sif þeirra Guðrúnar og Snorra í Fremont. Þar sem þemað voru “hundar” þá vorum við m.a. leyst út með lítilli hundadúkku, hundaeyrum og glasi sem var eins og bein í laginu! Um kvöldið spiluðum við svo Game of Life og komumst að því okkur til hálfgerðs niðurdreps að menntun er svo til einskis virði í lífsleiknum… Sniff, sniff… 😉