Sunnudagur 3. október 2004
Uppþvottavél!
Í gær fengum við loksins afhenta uppþvottavélina okkar – og komumst að því að pípurnar sem við héldum að myndum passa fyrir hana í eldhúsinu eru bara fyrir þvottavél og þurrkara. Uppþvottvélin verður því víst að fá vatnið úr eldhúskrananum og þangað skal affallið líka fara… enda bannað að setja matarleyfar niður sama niðurfall og þvottavélarnar nota. En því miður eru slöngurnar sem fylgja uppþvottavélinni svo stuttar að við þurfum að rúlla henni út á mitt eldhúsgólf til að tengja hana við kranann – og þar með getum við varla opnað ísskápinn. Við vorum að velta fyrir okkur að kaupa einhvers konar framlenginarslöngur, en það fannst ekkert í Home Depot í dag. En kannski að þetta dragi bara úr nætursnarli?!
Annars lítið í fréttum, við horfðum á forsetakappræðurnar með öndina í hálsinum og önduðum léttar þegar í ljós kom að Kerry var í góðu formi og Bush í slæmu formi. Phew! Önnu finnst bara fínt að vera á leikskólanum (held ég) enda lítið pláss til að spana um hérna heima – og alltaf sama dótið. Ég fór annars í gær og keypti á hana náttföt, peysur og sokka, því þegar það kólnaði hérna um daginn uppgötvaðist að hún ætti eiginlega ekkert nema samfellur og buxur… úppsss… 🙂