Sunnudagur 8. ágúst 2004
Allt betra
Önnu Sólrúnu leið strax betur í gær, hitinn fór úr 38 stigum í 1-2 kommur og hún var miklu hressari. Steinunni leið líka betur, svo mikið betur að hún fór upp í borg að hitta hinar óperurnar sem ætluðu að gista þar yfir nótt á hóteli. Ég hefði líka getað farið upp í borg á frekar fancy veitingastað og á leikhússýningu (stelpurnar voru að steggja Önu sem giftir sig í september) en ég bar við almennum slappleika.
Sá svolítið eftir því en á móti kom að Anna litla var vakandi eiginlega í allt gærkvöld (einhver smá magakveisa?) þannig að Finnur sat ekki einn upp með hana. Til að vega svo upp á móti ekki-ferðinni-á-veitingastaðinn keypti ég hins vegar fínt grillkjöt hjá kaupmanninum á horninu – og það reyndist alveg himneskt! Við sama tækifæri vígðum við vígalega grilláhaldasettið sem Finnur fékk í afmælisgjöf frá G&S; og það var alveg snilld!
Úti er að hitna, spáð 31 stigs hita í dag, en það ætti ekki að koma mikið að sök því nýja íbúðin er í skugga undir trjám og verður því ekki mjög heit.