Mánudagur 9. ágúst 2004
Vinnudagur
Við Steinunn vorum á báðum áttum hvort við ættum að láta Önnu fara á leikskólann því hún var frekar lystarlítil og hálf-aum í morgunsárið. En þar sem hún vaknaði svo eiturhress eftir hádegisblundinn sinn þá ákváðum við að láta hana bara fara og hitta hina krakkana. Hún skemmti sér víst ágætlega, en ekki vildi hún sofna hjá þeim. Í staðinn sóttum við hana klukkan fjögur og hún hrundi í rúmið og svaf í tæpa tvo tíma. Vonandi gengur betur næst.
Þar sem hún var í burtu í dag þegar hún vakti og sofandi þegar hún var heima, þá náði ég að vinna slatta. Ég ákvað að fara aftur á byrjunarreit í dótinu mínu og villutékka sjálfa mig, og reyna um leið að skrifa “skýrslu” um það sem ég hef verið að bralla. Það hefur gengið ágætlega. Vonandi næ ég að henda af mér mjög “rough” eintaki til leiðbeinandans míns áður en ég legg af stað vestur á bóginn til að vera brúðarmey. Er með móral yfir að hafa ekki farið í brúðarmeyjar-megrun en á móti kemur að ég er eiginlega að verða antí-megrunar manneskja. Amk hefur það verið mín sorglega reynsla að ef ég hef misst einhver kíló þá hafa þau bara komið aftur og tekið vini sína með! Svekkur í bala. Hvað um það.
Finnur prófaði að mæta einum og hálfum klukkutíma fyrr í vinnuna í morgun (mættur klukkan hálf níu), en var svo bara kominn heim hálftíma fyrr en venjulega (hálf sjö). Betur má ef duga skal, enda ekki hægt hvað hann er að mæta seint heim á kvöldin. Við lendum trekk og trekk í því að vera að borða kvöldmatinn klukkan hálf níu á kvöldin… og þá urrgar í okkur kvenfólkinu! 🙂