Sunnudagur 11. júlí 2004
Afmælisveisla í hitanum
Hann Flóki Fannar varð eins árs í dag og við lögðum því land undir fót og fórum í afmælisveislu til hans alla leið uppi í Walnut Creek, sem er í klst akstursfjarlægð í norðaustri frá okkur. Afmælisveislan var haldin í voða fínum almenningsgarði og þar sem sólin var brennandi heit héldum við okkur í skugganum undir trjánum allan tímann. Það kom fljótlega í ljós að við höfðum gleymt bæði sólhattnum hennar Önnu og líka sólarvörninni en þar sem við vorum í skugga höfðum við ekki miklar áhyggjur af því… Anna er því svoldið roðin núna – en við vonum að þetta sé ekkert alvarlegt. Núna ætlum við því að búa til lista til að líma á útidyrahurðina með öllu því sem verður að vera með þegar við förum út fyrir hússins dyr! 🙂
Af sveppasýkingunni er það að frétta að munnurinn virðist vera orðinn nokkuð góður, en í staðinn eru komin ansi svæsin útbrot í bossann á henni. Við vonum bara að lyfið hennar skoli sér í gegn og lagi neðri endann líka!! Hún hefur að mestu tekið þessu með stóískri ró, helst verið fúl af gulrótar-harðlífinu undanfarna tvo daga – núna er að sjá hvort grænar baunir fara betur í hana… Spennó! Svo tókum við líka ákvörðun um það í dag að næstu helgi verður gert átak í svefnmálum hjá henni – lesist: ég ætla ekki að huga að henni og gefa henni að drekka á nóttunni næstu helgi, heldur fær Finnur að reyna að róa hana – lesist: það á enginn eftir að sofa næstu helgi. Markmiðið er að hún fari að sofa betur á nóttunni, því sem stendur er ég orðin hálf geðveik eftir þrjá mánuði af stanslausum svefntruflunum… gaaaaaa!!!! 🙂