Þriðjudagur 27. júlí 2004
Ó, mig auma!
Á sunnudagskvöldið fann Steinunn þriðju tönnina hennar Önnu, og morguninn eftir þá fjórðu! Tennurnar eru í efri gómi, sitt hvorum megin við framtennurnar sem hafa ekkert látið á sér bóla. Hún hefur tekið þessu með sæmilegri ró, verið svolítið pirruð en ekki tekið nein svakaleg köst ennþá… sjö, níu, þrettán… Það er annars að verða reynslan að allt svona byrjar sakleysislega og versnar svo. T.d. fékk hún 38 stiga hita eftir sprauturnar í síðustu viku og var lengi vel frekar “sloj”, sem gerðist ekki síðast.
Af skemmtilegri fréttum er að hún er alltaf að við það að byrja að skríða, en finnst svo svakalega gaman að vera á fjórum fótum og rugga sér fram og til baka að það gæti tekið smá stund í viðbót. Nú er hún líka búin að uppgötva að hún getur búið til voða háan tón (í tíðni, íííííííí), en sem betur fer er hún ennþá frekar lágvær með hann… 🙂
Í dag fór hún svo með Steinunni á leikskólann sinn sem er hérna hinum megin við götuna í “aðlögun”. Hún fær síðdegispláss þar í næstu viku svo það er eins gott að fara að venja hana við. Hún stóð sig víst bara vel, heyrðist varla í henni allan tímann. Á meðan fór ég á hópfund í skólanum og rétt náði að halda svefnlausum haus. Var alveg ónýt bæði í gær og í dag af svefnleysi (eða öllu heldur trufluðum svefni þar sem Anna vaknar til að fá snuðið sitt og prumpa!) og tókst fyrst að leggja mig að degi til seint í dag – hef annars verið óþolandi andvaka á daginn. Hrumph! Hvurslags vitleysa er það að geta ekki sofnað ef maður er þreyttur?!? Algjör strumpur!