Miðvikudagur 23. júní 2004
Lífið að falla í fastar skorður
Mánudag og þriðjudag var ég allan daginn á “vinnufundi” um handleiðslu kvenna (og annarra minnihlutahópa) í akademíu hérna á kampus. Steinunn kom mér algjörlega til bjargar og passaði Önnu á meðan ég sat í salnum og hlustaði á mér vitrari menn og konur – og ég skutlaðist heim í hádeginu til að sjá um mjólkurframleiðslu… 🙂 Það var gaman að sjá hverju maður getur búist við þegar maður klárar doktorsgráðuna – en á sama tíma svolítið ógnvekjandi, sérstaklega miðað við þessar tölur.
Í gær yfirgáfu svo Holla og Óli okkur eftir allt of stutta dvöl. Þau komu okkur samt alveg til bjargar með flutningana, en á móti kom að þau gerðu kannski ekki mikið “skemmtilegt” á meðan. Þeim tókst reyndar að fara til San Fran með Steinunni, en þess fyrir utan voru þau miskunnarlaust notuð við pakkningar, flutninga og afpakkningar og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir! Við vonum bara að þau standi við að koma aftur í heimsókn að ári! 🙂
Um kvöldið tókum við okkur þrjú svo til og tókum betur til hérna í íbúðinni svo núna lítur þetta bara nokkuð mannsæmandi út. Það er samt mikið sem á eftir að snurfusa (t.d. raða bókunum) og við eigum eftir að kíkja í Ikea til að kaupa hirslur, og tölvuborð fyrir Steinunni (við eigum gamla en mjög nothæfa tölvu)… 🙂 Fyrir þá sem vilja vita, þá er síminn okkar núna (650) fjórir-níu-sjö þrjátíuogfimm þrjátíuogsjö… 🙂
Anna virðist annars vera kát þó mamma láti sig hverfa í nokkrar klukkustundir á hverjum degi, enda í góðu yfirlæti hjá Steinu frænku! 🙂 Ég hef náð að skilja eftir slatta af mjólk handa henni á hverjum degi, og þar fyrir utan er hún hægt og rólega farin að borða meira. Síðustu þrjá daga hefur hún fengið krukku-gulrætur í hádegismat (og haft afskaplega áhugaverðar hægðir á eftir) og svo fékk hún líka hafragraut í kvöldmat í dag. Maturinn gengur ágætlega ofan í hana og núna er bara að fara að fjölga tegundunum. Hún er mikill spriklari og liggur sjaldan kyrr en er yfirleitt alltaf í góðu skapi.
Lífið er sem sagt hægt og rólega að falla í fastar skorður og núna þarf ég bara að fara að koma mér að skóla-verki. Það er næst á dagskrá… 🙂