Mánudagur 17. maí 2004
Fuglarnir að fljúga úr hreiðrinu…
Eftir rétt tæpa vikudvöl, þá eru Hólmfríður og Óli við það að stíga um borð í flugvél og fljúga til Suður-Ammeríku. Við erum voða trist yfir því, en getum huggað okkur við að þau ætla að heiðra okkur með nærveru sinni aftur um miðjan júní – vonandi fullsödd af inkum, hæðum, hólum og lamadýrum. Svo erum við nú að fara til Kanada á miðvikudaginn svo það er nú ekki eins og við höfum ekkert að gera þegar þau fara.
Dagurinn leið annars í rólegheitunum eftir gasalega ferð til Napa í gær. Við mæðgur vorum bara heima á meðan Holla og Óli gengu um hverfið og kíktu á verslunarklasann hérna í nágrenninu. Finnur var í vinnunni á meðan. Og já – Napa!! Þar fórum við í kokkaskóla þar sem við rétt náðum að seðja sárasta hungrið með fimm afar fínum forréttum (biti á mann) áður en við fórum og lærðum að elda baklava og spínatdót sem maður kaupir yfirleitt frosið… 🙂 Svo var kíkt í Beringer og til Calistoga og þar splæstum við eiginlega óvart á svakalega máltíð – líklega þá flottustu síðan við fluttumst hingað út!