Föstudagur 21. maí 2004
Allt-bú!
Jæja, ég hélt 10 mínútna töluna mína í morgun, sem gæti hafa verið aðeins styttri en 10 mínútur því mér fannst þetta líða ískyggilega hratt! En það hafðist og það hló enginn amk upphátt svo það var gott. Síðan náði ég í Önnu til Finns á hótelinu (þau höfðu bara sofið áfram, enda fyrirlesturinn klukkan tæplega 10 í morgun) og fór með hana á restina af fyrirlestrunum í minni “session”. Það gekk ágætlega, hún var stillt og góð (nema þegar hún fékk sinn eina sanna háa hiksta…) og þegar allt var búið sofnaði hún.
Við gengum síðan aðeins um verslunarhverfið, en það er bara svo mikið af búðum að ég gafst upp á færi og er núna á skrifstofunni hans Finns, alveg að leka niður – enda í smá spennufalli.
Ef við höfum orku til þá kíkjum við á gamla bæinn á eftir, ef ekki í dag, þá amk á morgun. Svo þurfum við að finna stað til að borða á, við höfum verið heppin (og ónísk) hingað til svo við vonum það besta! 🙂