Sunnudagur 23. maí 2004
Komin heim í heiðardalinn
Við vöknuðum rúmlega fimm í morgun til að fara á flugvöllinn og fljúga heim. Vélin tafðist um tæpan klukkutíma því flugstjórarnir voru fastir í ofurpökkuðu öryggistékki og svo þurfti að ditta aðeins að flugvélinni, en þess fyrir utan gekk ferðin ágætlega. Það var reyndar slatta ókyrrð í loftinu, en Anna svaf heilmikið og ég náði aðeins að dotta líka.
Við lærðum annars slatta á leiðinni hingað. 1) Þegar maður flýgur frá Kanada til USA, þá fer maður í gegnum bandaríska tollskoðun og innflytjendaeftirlitið á flugvellinum í KANADA! Þeir sömdu víst um að hafa þetta svona því það er svo mikið af viðskiptafólki að fljúga á milli landanna sem stólar á að ná tengifluginu í USA, og það er ekki hægt þegar menn eru fastir í biðröð á eftir fólki frá Timbúktístan að reyna að komst inn í USA.
2) Ef þú ert kanadískur glæpamaður og þú ert handsamaður eftir að hafa farið í gegnum innflytjendaeftirlitið á flugvellinum þá fórstu aldrei til USA og lendir því ekki í vandræðum þar.
3) Það er bannað að taka ljósmyndir innan í flugvél þegar verið er að setja eldsneyti á hana. Eitthvað í sambandi við eldhættu…
Annars var vélin nokkuð tóm, líkt og vélin sem við fórum með út, svo við fengum þrjú sæti út af fyrir okkur, sem er bara lúxus í dós. 🙂
Húsnæði
Fyrir þá sem vilja vita af hverju við viljum flytja þá er það aðallega til að fá annað svefnherbergi og svo aðgang að ótrúlega flottum og barnavænum leiksvæðum. Svo verður líka auðveldara fyrir mig að komast í og úr skólanum. Á móti kemur að öll herbergin eru miklu minni og ég veit ekki hvort allt hafurtaskið okkar eigi eftir að komast fyrir… Svo er eldhúsinnréttingin frekar leiðinleg, málað timbur og flísar á borðum. En staðsetning er æðisleg – vona ég! 🙂