Föstudagur 30. apríl 2004
Úhhh… Fætur! 🙂
Anna Sólrún uppgötvaði á sér lappirnar í dag. Ég setti hana í svona sokka með litríkum pöddu-hringlum og hún var ekki lengi að grípa í þær. Nú þarf maður víst að fara að passa upp á að tærnar á henni séu ekki grútskítugar… 🙂 Af öðrum afrekum er það helst að frétta að hún snýr sér núna um 180 gráður á bakinu, ég legg hana með hausinn í eina áttina, og skömmu seinna er hún búin að juða sér einhvern veginn þannig að hausinn snýr í hina áttina. Samt er hún ekki farin að velta sér, en það er farið að styttast í það…
Annars er hitastigið orðið bærilegra en í byrjun vikunnar, meira svona 25-27 stig þessa dagana. Við erum að mestu búnar að vera bara heima, ég fór reyndar að hitta Sólveigu í hádeginu í gær, en þess fyrir utan erum við bara heimapúkar í heimsklassa. Ekki alveg nógu gott það.
Af íbúðarmálum er ekkert að frétta, nema að í dag var síðasti dagurinn til að fá úthlutað íbúð á kampus þetta misserið. Við þurfum því að fara í gegnum kampus-lotteríið og vinna bæði sumar og haust lotteríið (#andvarp#). Þar með lítur út fyrir að við flytjum í fyrsta lagi þann 19. júní… Ég talaði við leigustjórann hérna og hún sagði að hún verði að fá frá okkur 6 eða 12 mánaða samning þegar okkar samningur rennur út þann 16. júní, annars verðum við bara að fara. Ekkert month-to-month hjá henni. Hún sagði samt að við gætum fengið nokkra extra daga ef við þurfum það…
Af atvinnuleyfismálum Finns er það að frétta að hann leitaði á náðir “congresswoman” okkar og hvort sem það var henni að kenna eða einhverju, þá fékk hann símtal frá manni hjá INS með viti sem sagði honum að umsóknin hefði verið merkt “closed” án þess að hafa nokkurn tímann verið afgreidd…! Hann ætlaði að panta umsóknina úr geymslu, og vonandi verður búið að redda þessu innan tveggja vikna… Þá er bara að krossleggja fingur og vona að atvinnudótið gangi betur en íbúðardótið…