Miðvikudagur 10. desember 2003
Morgunvakn
Ég hrundi extra snemma í rúmið í gærkvöldi eftir mikinn labb-dag og uppskar því glaðvöknun klukkan 5:30 í morgun þegar ég þurfti að fara á klóið… Því sit ég núna við tölvuna (klukkan er 07:00) og er að bíða eftir að verða syfjuð aftur! 🙂
Annars gekk ráðstefnudótið bara vel í gær, ég mætti á svæðið upp úr hádegi (yfirmaður minn hafði mætt um morguninn til að setja upp plaggatið okkar. Ég var ekkert smá þakklát, enda hefði ég þurft að vakna um 6 í staðinn fyrir að fá að lúlla til 9…) og svo skjaldbakaðist ég um þar til kom að því að “vera við plaggatið”. Þá birtist Vala skyndilega, enda alvöru jarðeðlisfræðigella (AGU = American Geophysical Union) og sannaði þar með að hún væri ekki ennþá föst í Mexíco, eins og bloggið hennar gefur til kynna. Hún er bara búin að vera að díla við server-vandamál sem ættu að leysast fljótlega… 🙂
Eftir að hafa “verið við plaggatið” í tilskyldan klukkutíma, röltum við Vala um og hittum fleiri (aðallega ljóshærða, kvenkyns!!) Íslendinga áður en ég skrapp í Old Navy til að kíkja á barnafataúrvalið. Því miður voru öll ungbarnafötin þar með einhverju jóla-mótívi (hmm… snjókarlabolur í apríl?) og eitthvað voru bleiku-flíspeysurnar í skrítnum lit þannig að ég gekk bara út með einn mörgæsagalla og lét það gott heita. Fattaði þar með að ég á nógu erfitt með að finna föt á sjálfa mig (og ég kaupi aldrei aldrei aldrei bleik föt), að ég þurfi ekki að finna föt á barn sem ég veit ekkert hvernig lítur út (ljóshærð, dökkhærð, sköllótt?) og á þar að auki að vera í bleiku! Gaa! 🙂
Gleði dagsins: Finnur kemur heim í kvöld! 🙂