Sunnudagur 21. desember 2003
Forriti, forriti
Þrátt fyrir fögur fyrirheit hjá mér um að skólinn væri “búinn” í síðustu viku, þá eyddum við Finnur helginni í að vinna fyrir leiðbeinandann minn… Finnur sem sagt tók að sér að uppfæra C/C++ forritið góða sem við unnum við í sumar sem safnar gögnum frá stóra Stanford útvarps-sjónaukanum (46 m í þvermál) og birtir á tölvuskjá í “rauntíma”, og þegar Finnur var búinn með sitt þá tók ég til við að skrifa Matlab forrit sem les gögnin og birtir í “ekki rauntíma”… Nú er bara að sjá hvernig fólkinu sem þarf að nota þetta líst á. Planið mun víst vera að hlusta eftir geimförunum sem eru að lenda á Mars núna á allra næstu dögum og vikum og þess vegna samþykktum við að fórna helginni í þetta. Hvað gerir maður ekki til að bjarga afturenda leiðbeinandans síns?! 🙂
En helginni var samt ekki alveg fórnað. Í gærmorgun fórum við á Return of the King ásamt Guðrúnu. Ætluðum að vera voða sniðug og mæta í morgun-bíó klukkan hálf ellefu (já, 10:30 fyrir hádegi) og sleppa við troðninginn og fá sæmileg sæti… en það fengu greinilega fleiri þá hugmynd því við enduðum á öðrum bekk!! Myndin var hins vegar stórkostleg, eins og maður vissi fyrirfram, og núna hef ég fína afsökun fyrir því að fara aftur seinna… 🙂
Um kvöldið fórum við síðan í heimsókn til Loga og Tassanee, en þau voru að halda upp á afmælin sín. Hann á afmæli 18. des og hún þann 25. des, svo 20. des hentaði vel. 🙂