Mánudagur 3. nóvember 2003
7 mánuðir í dag
Hananú! Hvernig get ég verið komin sjö mánuði á leið þegar ég var rétt komin 3 mánuði hérna “um daginn”?!?! 🙂 En því verður víst ekki neitað, það eru bara tveir stuttir mánuðir í áætlaðan barnsburð… og í tilefni af því fórum við Finnur á okkar fyrsta “barnsburðarnámskeið” í kvöld. Þar var farið yfir líffærafræðina (leg, barn, naflastrengur, legkaka, mjaðmagrind… af hverju það er slæmt að liggja á bakinu í fæðingu…) og svo var farið yfir hin þrjú stig fæðinga (útvíkkun, fæðing barns og fæðing legköku). Við fengum að sjá myndband og svo í lokin tóku pörin hvort annað í fótanudd. Allt í allt voða þægilegt og ágætlega fróðlegt, þó aðallega fyrir Finn þó, því ég hafði séð flest allt í bókum áður.
Við eigum eftir að mæta í þrjú skipti í viðbót (næstu mánudaga), þá verður farið yfir a) stellingar/öndun, b) verkjalyf og c) keisaraskurð.
Annars er opinberlega kominn “vetur” hérna hjá okkur, 13-15 stiga hiti á daginn og 4-6 stiga hiti á næturna. Það hljómar ekki illa, en ég minni á að við kyndum ekki íbúðina á næturna vegna hávaðans frá kyndingunni, svo íbúðin er íííísköld á morgnana…