Þriðjudagur 11. nóvember 2003
Heima hálfan daginn
Ég var heima meiripart dags, enda ekkert gaman að dröslast með fyrrnefndan plastdúnk út um hvippinn og hvappinn – en svo skilaði ég honum af mér eftir hádegi, og hef ekkert heyrt frá spítalanum þannig að það virðist allt hafa verið í fínu lagi. Nú er ég komin með blóðþrýstingsmæli hérna heima, og það er ekkert smá gaman! Við hjónakornin skiptumst á að mæla okkur og ég skrái mínar tölur samviskusamlega inn í Excel! Ég er meiri að segja farin að búa til gröf, eins og sannur verkfræðingur! 🙂 (Meðaltal: 123/80)
Heldur leiðinlegra var að ná loksins í skottið á “customer service” hjá musicmatch.com, en þeir rukkuðu mig um $60 dollara í október, mér til mikillar undrunar, því ég hef aldrei keypt neitt hjá þeim! Í ljós kom að þeir voru ekki með neina færslu sem svaraði til visa-kortsins míns inni í kerfinu hjá sér, og því algjörlega hulin ráðgáta hvaðan þessi færsla kom. Því var ekki annað að gera en að hringja í bankann, tilkynna kortið stolið (þrátt fyrir að þetta hafi verið eina undarlega færslan) og fá sent nýtt. Það er þokkalegt bögg, því nú þarf ég að fatta hvaða dót er borgað sjálfkrafa með kortinu, svo þarf maður að breyta öllum upplýsingunum á amazon.com o.s.frv. Bömmer! 🙁