Mánudagur 10. nóvember 2003
Hrefna og blóðþrýstingurinn – Part 3
Hvort sem um var að kenna spítalafælni minni, hræðslu við vondu bláu blóðþrýstingsvélina, því að hafa keyrt bílinn í morgun eða hvað það nú var, þá mældist ég með himinháan blóðþrýsting í skoðun í dag (kringum 90/150), og í þetta sinn vildi hann ekki lækka þegar hann var tekinn aftur, hækkaði ef eitthvað var!! 🙁
Það var því tekin ákvörðun um að rúlla mér upp á fæðingardeild og halda mér þar rúmliggjandi næstu klukkutímana á meðan fylgst var með blóðþrýstingnum á 15 mín fresti. Þá var líka tekið blóð og sett í rannsókn, svo ekki sé minnst á eitt stykki þvagprufu… Sem betur fer leið ekki á löngu áður en blóðþrýstingurinn var kominn niður í 75/125 sem var gott, og það reyndist vera í himnalagi með blóðið. Það lítur því út fyrir að ég sé ekki með neina pre-eclampsiu, bara stressuð og það þarf greinilega lítið til að koma blóðþrýstingnum mínum á uppleið…
Þar sem allt virtist vera í lagi, þá var ég send heim – en með plastdúnk sem ég á að safna þvagi í næsta sólarhringinn og skila síðan aftur á spítalann á morgun þar sem blóðþrýstingurinn verður mældur aftur. Þá var mér líka bent á að ég gæti keypt mér heima-blóðþrýstingsmæli, sem ég er að hugsa um að gera seinna í dag, enda hlakkar í mér að setja gögnin upp á myndrænu formi og sjá hvort að það sé einhver regla á ruglinu í mér… 🙂
Þess fyrir utan var ég með merkilega reglulega samdráttarverki (þeir voru líka mældir, ásamt hjartslætti barnsins) en við “innri” skoðun kom í ljós að það var ekkert í gangi, svo það var líka gott. Niðurstaðan var sú að ég ætti að koma aftur í skoðun í næstu viku. Og til að toppa þennan stórkostlega ófrískudag, þá erum við svo að fara á barnseignarnámskeiðið í kvöld… 🙂