Fimmtudagur 13. nóvember 2003
Everwood bjargar deginum
Af einhverjum undarlegum ástæðum átti ég eftir að horfa á tvo Everwood þætti, og þar sem dagurinn var vægast sagt hundleiðingur (lesist “skrifstofupólitík”) þá var það verkefni kvöldins. Mál dagsins var hins vegar: “Hver á að borga fyrir blekið í prentaranum, og nýja prenthausa þegar ódýra blekið stíflar þá?”. Ég hef nefnilega setið uppi með að viðhalda heilsu bleksprautuprentara fyrir skrifstofuna (3 hópar, hver með sitt fjármagn) í tæp tvö ár, en þegar einn prenthausinn (3000 kall stykkið) stíflaðist eftir aðeins 3 vikur þá bara nennti ég ekki að fara að væla út meiri pening, og lét dæmið bara klessa á vegg. Núna er þó kominn botn í málið, einn prófessorinn er opinberlega búinn að draga sig út úr prentaradæminu og ég búin að fá leyfi til að kaupa nógu mikið blek og nýjan prenthaus til að koma prentaranum á lappir aftur…
Þetta þýddi hins vegar að heilmikill tími fór í að grafa upp blek -og prenthausa kvittanir, og reyna að útskýra hvað er búið að vera í gangi með greyið prentarann. Almennt heilræði: Ekki kaupa bleksprautuprentara á skrifstofu, nema skrifstofan hafi líka aðgang að svart/hvítum leiserprentara, því annars endar bleksprautuprentarinn sem “allt mulig” prentari og étur formúu af bleki. 🙁