Fimmtudagur 9. október 2003
Multi-tasking ekki að virka
Ég veit ekki hvort það eru óléttuhormónar eða hvað, en mér gengur alveg ómögulega að skipuleggja tíma minn þannig að mér verði eitthvað úr verki. Þar með er ekki sagt að mér verði yfirleitt mikið úr verki, en gallinn núna er að ég virðist vera farin að þurfa að skrifa niður lista yfir það sem ég þarf að gera, sem er óvenjulegt. Hausinn er bara í einhverju fríi. Reyndar er líka möguleiki að mér sé bara ómögulegt að halda utan um: 1) “rannsóknir”, 2) vera í 1 kúrs sem ég þarf að gera heimadæmi fyrir, 3) vera TA fyrir 1 kúrs (þar sem ég þarf að gera a) dæmalausnir, b) halda dæmatíma og c) viðhalda vefsíðu), 4) vera vefstjóri fyrir deildarvefinn (sem ég fæ reyndar metið sem 3ja eininga “kúrs” þessa önnina, jibbí!) og 5) að vera vefstjóri fyrir STAR Lab-vefinn (sem ég þó hannaði ekki).
Til að bæta gráu ofan á svart þarf maður að vera að taka leiðinda ákvarðanir, eins og “Hvað er í kvöldmat?” annan hvern dag (Finnur fær það í hausinn hina dagana), “Hvenær á að vakna?”, “Hvað er í hádegismat?”, “Í hverju á ég að vera í dag?”, “Hvaða leið ætli sé best að keyra í skólann í dag?”, svo ekki sé minnst á að muna eftir því að vökva blómin! Allt þetta er algjörlega óþarft “brain-drain” að mínu mati… en hvað er hægt að gera til að leysa þetta?!
Jú, og svo fór ég í skoðun á þriðjudaginn og allt virtist í fínu lagi. Legið mældist 28 cm langt og hjartslátturinn var á bilinu 140 – 150 sem ljósan var ánægð með því það er víst gott að slátturinn sé breytilegur, en samt reglulegur, ef svo má að orði komast…